Skoðun

Stjórn Vatnajökulsþjóðgarðs hlusti betur á almenning

Forsvarsmenn níu félagasamtaka útivistarfólks skrifar

Í grein í Fréttablaðinu 3. nóvember sakar stjórn Vatnajökulsþjóðgarðs tiltekna útivistarhópa um neikvæðan og villandi málflutning varðandi tillögur að stjórnunar- og verndaráætlun Vatnajökulsþjóðgarðs. Þetta er alvarleg ásökun sem snertir marga aðila s.s. jeppafólk, veiðimenn, hestamenn, sleðafólk, fjórhjólafólk, mótorhjólafólk og almenning.

Þetta mál snýst í raun um rétt almennings til ferðafrelsis innan Vatnajökulsþjóðgarðs, en þar hafa margir ólíkir útivistarhópar ferðast saman í áratugi. Það var gefið loforð við stofnun Vatnajökulsgarðs um að ekki yrði takmörkuð sú útivist sem þar hafi verið stunduð. Staðreyndin er samt sú að í fyrirliggjandi tillögum að stjórnunar- og verndaráætlun Vatnajökulsþjóðgarðs sem liggja hjá umhverfisráðherra, er verið að ganga mun lengra í takmörkunum og höftum á ferðafrelsi og útivist, en almenningur á Íslandi getur sætt sig við.

Hverjar eru staðreyndir málsins:

1. Vegslóðar: Stjórn VJÞ segir ósatt að heildarlengd lokaðra vegslóða sé um 50 kílómetrar. Bara lokanir á Vikrafellsleið e (45 kílómetrar) og Vonar­skarðsvegi (17 kílómetrar) gera samtals 62 kílómetra og eru þá ótaldar fjölmargar leiðir á Jökulheimasvæðinu.

2. Útivistarþarfir: Stjórn VJÞ segir þjóðgarða ekki geta uppfyllt allar þarfir útivistar­fólks. Lokun á vinsælum ferðamannaleiðum án rökstuðnings um verndun tegunda og vistkerfa, verndun víðerna og friðhelgi er ekki ásættanleg. Stjórn VJÞ hefur engin rök fyrir þessum lokunum og telur sig ekki þurfa að setja þær fram.

3. Sambúð útivistarhópa: Stjórn VJÞ gengur út frá því að sambúð mismunandi útivistarhópa sé ekki raunhæfur möguleiki. Margir hafa einmitt bent á að það ætti að vera hlutverk landvarða að tryggja að ekki skapist árekstrar milli þessara hópa og nota m.a. tilkynningaskyldu. Með slíku fyrirkomulagi ættu einmitt að skapast forsendur fyrir samstarfi í stað sundrungar þeirra sem nýta sér þjónustu þjóðgarðsins.

4. Saga og menning: Þjóðgarðar hljóta að eiga að taka tillit til sögu og menningar þjóðar. Að loka Bárðargötu, elstu þjóðleið Íslendinga yfir hálendið fyrir akandi umferð og hestafólki er algjört tillitsleysi við sögu og menningu okkar Íslendinga.

5. Stærð landsvæða: Stjórn VJÞ segir að einungis sé verið að banna skotveiðar á 3,4% af nytjalandi garðsins utan jökla. Austursvæðið í VJÞ skiptir veiðimenn mestu máli, en það ásamt suðursvæði VJÞ eru þau svæði sem eru veiðanleg innan garðsins. Það er verið að loka um 23% af veiðanlegu svæði innan VJÞ með stofnun griðlands innan Snæfellsöræfa.

6. Skotveiðar í þjóðgarði nýlunda: Það er ekki rétt að veiðar í þjóðgörðum sé nýlunda, þær eru stundaðar í þjóðgörðum víða um heim. Skotveiði á ekki að vera sjálfsögð í þjóðgörðum, en veiðimenn hafa hins vegar hvatt til þess að veiðistjórnun sé byggð á traustum grunni og framkvæmd af Veiðistjórnar­embættinu, sem hefur heildaryfirsýn yfir ástand stofna á Íslandi.

7. Seinkun á veiðitíma: Stjórn VJÞ leggur til að veiðar á gæs verði ekki heimilaðar frá 20. ágúst heldur frá 1. september, ólíkt því sem er annars staðar á Íslandi. Meginrökin eru þau að veiðimenn eru sagðir skjóta ófleyga fugla sem er ósannað með öllu og flestir veiðimenn skjóta fugla á flugi. Þetta skiptir engu máli fyrir þá sem ekki stunda veiðar á heiðagæs, en á þessum 11 dögum er besti veiðitíminn fyrir heiðagæsina, en hegðun hennar verður óútreiknanleg í september.

8. Stjórnsýslulög:Stjórn VJÞ braut stjórnsýslulög með því að svara ekki með beinum hætti þeim sem gerðu athugasemdir við tillögur að stjórnar- og verndar­áætluninni. Stjórnin sendi fjöldapóstinn á alla sem gerðu efnislegar athugasemdir.

Eins og sést hér að framan, er það ekki að ástæðulausu sem jeppafólk, veiðimenn, hestamenn, sleðafólk, fjórhjólafólk, mótorhjólafólk og almenningur tekur sig saman og lætur í sér heyra. Það var ekkert tillit tekið til athugasemda þessara aðila í undirbúningsferlinu og þeir ekki taldir svaraverðir efnislega. Að saka þessa aðila um neikvæðan og villandi málflutning er úr lausu lofti gripið og sýnir best hvernig vinnubrögð stjórnar Vatnajökulsþjóðgarðs eru.

Landssamband hestamanna -

Þorvarður Helgason,

stjórnarmaður

Landssamband vélsleðamanna - Birkir Sigurðsson, forseti

Landssamtökin Ferðafrelsi -

Guðmundur G. Kristinsson,

formaður

Ferða- og útivistarfélagið Slóðavinir - Jakob Þór Guðbjartsson, formaður

Ferðaklúbburinn 4x4 - Sveinbjörn Halldórsson, formaður

Skotveiðifélag Íslands -

Sigmar B. Hauksson, formaður

Vélhjólaíþróttaklúbburinn Vík - Hrafnkell Sigtryggsson, formaður

Skotreyn - Kristján Sturlaugsson, formaður

Jeppavinir - Þorvarður Ingi

Þorbjörnsson, formaður





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Skoðun

Saman gegn ríkisofbeldi

Vilhjálmur Yngvi Hjálmarsson,Örlygur Steinar Arnaldsson,Sigurhjörtur Pálmason,Simon Valentin Hirt,Kristbjörg Arna E. Þorvaldsdóttir,Ari Logn,Margrét Rut Eddudóttir skrifar

Sjá meira


×