Handbolti

Stelpurnar eiga skilið að höllin verði fyllt

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Vísir/Valli
„Þetta eru flottar fyrirmyndir sem við eigum. Þrettán leikmenn í landsliðinu spila sem atvinnumenn og ég hvet foreldra til að taka börnin með sér í Laugardalshöllina á sunnudag og hvetja stelpurnar til dáða. Þær eiga það skilið að höllin verði fyllt,“ segir landsliðsþjálfarinn Ágúst Þór Jóhannsson en Ísland vann í gær sannfærandi níu marka sigur á Ítalíu í forkeppni HM 2015.

Sigurinn setur stelpurnar í góða stöðu fyrir framhaldið en liðin mætast sem fyrr segir í Laugardalshöllinni á sunnudag. Íslenskur sigur í þeim leik þýðir að stelpurnar þurfa bara eitt stig í leikjunum tveimur gegn Makedóníu í næsta mánuði til að tryggja sér sigur í riðlinum og þar með sæti í umspilskeppninni næsta vor, þar sem það ræðst hvaða lið vinna sér þátttökurétt í úrslitakeppni HM 2015 sem haldin verður í Danmörku.

„Við byrjuðum þennan leik af miklum krafti og varnarleikurinn var til fyrirmyndar og markvarslan sömuleiðis,“ sagði Ágúst um sigurinn í gær en Florentina Stanciu fór mikinn í marki Íslands og varði 24 skot.

„Það var mikill kraftur í okkur allan leikinn. Við spiluðum á þrettán leikmönnum og héldum uppi hraðanum allar 60 mínúturnar enda vissum við að markatalan gæti skipt máli. Stelpurnar fá því hrós fyrir frábæra frammistöðu enda fer stórsigrum alltaf fækkandi í alþjóðlegum handbolta og það er langt í frá sjálfgefið að fara hingað til Ítalíu og vinna níu marka sigur,“ sagði Ágúst að lokum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×