Innlent

Steinunn Stefánsdóttir nýr formaður Kvenréttindafélags Íslands

Þórhildur Þorkelsdóttir skrifar
MYND/STEFÁN

Aðalfundur Kvenréttindafélags Íslands fór fram á Hallveigarstöðum í gær. Steinunn Stefánsdóttir var kosin formaður félagsins og Fríða Rós Valdimarsdóttir tók sæti varformanns.

Í stjórn voru kosnar Eygló Árnadóttir, Helga Dögg Björgvinsdóttir, Hildur Helga Gísladóttir, Hrafnhildur Ragnarsdóttir, Hugrún R. Hjaltadóttir og Ragnhildur G. Guðmundsdóttir.

Steinunn er með BA- próf í íslensku og almennum málvísindum auk prófs í uppeldis – og kennslufræði. Hún starfaði sem blaðamaður á Fréttablaðinu frá stofnun þess árið 2001 og var aðstoðarritstjóri blaðsins á árunum 2006 - 2013. Þá hefur hún starfað sem blaðamaður hjá DV, upplýsingafulltrúi Fræðslumiðstöðvar Reykjavíkur og framhaldsskólakennari.

Á fundinum voru rædd helstu verkefni næstu ára, en árið 2015 fagnar félagið því að hundað ár eru liðin frá því að konur fengu kosningarétt. Þá verður samnorræna kvennaráðstefnan Nordisk Forum haldin í Malmö 2014. Ráðstefnan mun fjalla um allt milli himins og jarðar tengt kvenréttindum og jafnréttisbaráttunni, bæði á Norðurlöndum og annars staðar í heiminum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×