Innlent

Stefán Haukur skipaður ráðuneytisstjóri í utanríkisráðuneytinu

Þorbjörn Þórðarson skrifar
Stefán Haukur Jóhannesson nýr ráðuneytisstjóri í utanríkisráðuneytinu.
Stefán Haukur Jóhannesson nýr ráðuneytisstjóri í utanríkisráðuneytinu.
Stefán Haukur Jóhannesson, fyrrverandi formaður samninganefndar Íslands gagnvart Evrópusambandinu, hefur verið skipaður ráðuneytisstjóri í utanríkisráðuneytinu frá og með 1. nóvember næstkomandi.

Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra skipar í stöðuna og var starfsmönnum ráðuneytisins tilkynnt þetta fyrr í þessum mánuði. Einar Gunnarsson, sitjandi ráðuneytisstjóri, verður fastafulltrúi Íslands hjá Sameinuðu þjóðunum í New York frá og með 1. janúar næstkomandi. Í millitíðinni sinnir Einar öðrum verkefnum fyrir ráðuneytið. 

Stefán Haukur, sem er lögfræðingur að mennt, hefur starfað í utanríkisráðuneytinu frá 1986.Hann var starfsmaður fastanefnda Íslands gagnvart NATO í Brussel og WTO í Genf frá 1987-1993.

Hann var formaður samninganefndar um aðild Rússlands að WTO frá 2003. Viðræðum lauk í nóvember 2011 og jákvæð niðurstaða um aðild Rússlands samþykkt í desember 2011.

Stefán Haukur var leystur frá störfum sem formaður samninganefndar Íslands gagnvart ESB þegar samningahóparnir voru leystir upp eftir alþingiskosningar í fyrra. 

Í kjölfarið fór hann m.a. að sinna sérverkefnum fyrir utanríkisráðuneytið hjá Öryggis- og samvinnustofnun Evrópu, ÖSE, og fór m.a. til Úkraínu. Var hann meðal þeirra sem fóru á vettvang eftir að farþegaþota Malaysia Airlines í flugi MH17 var skotin niður af uppreisnarmönnum í austurhluta Úkraínu sl. sumar. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×