Viðskipti innlent

Starfsmenn ÍLS skildu ekki áhættustýringu

Boði Logason skrifar
Frá fundinum í dag.
Frá fundinum í dag. Mynd/Vilhelm
Starfsmönnum Íbúðalánasjóðs skorti þekkingu til að vinna með þær áhættustýringaraðferðir sem komið var á laggirnar fyrir sjóðinn, segir í niðurstöðukafla kolsvartrar skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis um sjóðinn.

„Fyrir breytingar á fjármögnun og útlánum Íbúðalánasjóðs árið 2004 var engin formleg áhættustýring innan sjóðsins enda var takmörkuð þörf fyrir slíkt. Breytt fyrirkomulag hafði þau áhrif að vaxtaáhætta sjóðsins, einkum uppgreiðsluáhætta, jókst. Til að mæta þessari auknu áhættu mælti löggjafinn fyrir um að Íbúðalánasjóður skyldi setja sér áhættustýringarstefnu. Íbúðalánasjóður fékk sænska ráðgjafafyrirtækið Capto til að setja fram stefnuna og koma upp áhættustýringarkerfi í því skyni að efla stýringu og eftirlit með áhættu sjóðsins og draga úr henni sem kostur væri," segir í skýrslunni.

„Áhættustýringu sjóðsins var samt sem áður verulega ábótavant eftir að henni var komið á. Starfsmenn sjóðsins virðist hafa skort þekkingu til að nýta eftirlitskerfið og þær áhættustýringaraðferðir sem komið var á laggirnar fyrir sjóðinn. Fram að haustinu 2005 sá Capto um útreikningana fyrir sjóðinn en starfsmenn sáu um að túlka niðurstöður fyrirtækisins í skýrslum til eftirlitsaðila. Íbúðalánasjóður túlkaði niðurstöður Capto oft ranglega og nýtti ekki alla útreikninga fyrirtækisins," segir ennfremur í skýrslunni.

„Eftir að starfsmenn ÍLS tóku sjálfir við útreikningunum einfölduðu þeir stóran hluta af útreikningum Capto. Það varð til þess að reiknaðir áhættumælikvarðar endurspegluðu ekki raunverulega áhættu sjóðsins. Sumir útreikningar í skýrslum til eftirlitsaðila voru rangir og oft endurteknir úr eldri skýrslum. Það gerði illt verra að Fjármálaeftirlitið sem fékk skýrslurnar virtist ekki taka eftir þessu - að minnsta kosti voru ekki gerðar athugasemdir af hálfu eftirlitsins. Einnig er ljóst að oft var ekki lögð vinna í að túlka hvað uppfærðar niðurstöður útreikninga þýddu. Virkt eftirlitskerfi með áhættu og raunhæft mat á áhættu eru forsenda þess að réttum áhættustýringaraðferðum sé beitt. Þar sem starfsmenn sjóðsins virðast ekki hafa skilið áhættustýringarstefnuna beitti sjóðurinn ekki réttum fyrirbyggjandi aðgerðum til að draga úr áhættu.“

Afleiðingar þessa voru alvarlegar þar sem áhættustýring sjóðsins varði hann aldrei fyrir einum stærsta áhættuþættinum, þ.e. uppgreiðsluáhættu, og ýmsar aðgerðir sjóðsins í nafni áhættustýringar juku áhættu sjóðsins í stað þess að draga úr henni. [...] Aðgerðaleysi starfsmanna og rangar aðgerðir sem juku áhættu sjóðsins réðu miklu um það að staða Íbúðalánasjóðs versnaði frá haustinu 2004.“

Niðurstöðukaflann má nálgast hér.


Tengdar fréttir

Skuldabréfaskiptin ein verstu mistökin

Rannsóknarnefnd Alþingis um starsemi Íbúðalánasjóðs segir í kolsvartri skýrslu um sjóðinn að ein verstu mistökin sem voru gerð hjá sjóðnum hafi verið þegar íbúðabréfakerfið var tekið upp árið0 2004 og húsbréfakerfið lagt niður.

Heildartap íbúðalánasjóðs 270 milljarðar

Heildartap sjóðsins frá stofnun nemur því allt að 270 milljörðum króna, þar af 86 milljörðum vegna útlána og fullnustueigna, 28 milljörðum vegna lausafjárstýringar, 54 milljörðum vegna uppgreiðslna og 103 milljörðum vegna uppgreiðsluáhættu.

Mistök Íbúðalánasjóðs kostað þjóðina milljarða

Í ágripi um helstu niðurstöður rannsóknarnefndar um Íbúðalánasjóð segir að rannsókn þeirra hafi leitt í ljós margvísleg mistök, sum mjög alvarleg, sem hafa kostað þjóðina milljarða króna.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×