Innlent

Stangast á við ákvæði EES-samningsins

Ein stærsta lögmannsstofa landsins telur að bann við gengistryggingu lána í íslenskri mynt sé í andstöðu við ákvæði EES-samningsins, að því er fram kemur í minnisblaði sem stofan vann fyrir fjármögnunarfyrirtæki.

Í kjölfar dóms Héraðsdóms Reykjavíkur í máli Lýsingar gegn tveimur skuldurum sem voru með gengistryggð lán, dóms sem síðar var áfrýjað og var síðan staðfestur af Hæstarétti, óskaði Lýsing eftir áliti lögmannsstofunnar Logos á því hvort 6. kafli laganna um vexti og verðtryggingu samrýmdist skuldbindingum Íslands á grundvelli EES-samningsins.

Í dóminum var sem kunnugt er komist að þeirri niðurstöðu 13. og 14. laga um vexti og verðtryggingu hefðu að geyma tæmandi talningu á heimildum til verðtryggingar. Binding lánsfjárhæðar við dagsgengi erlendra gjaldmiðla teldist verðtrygging í skilningi í laganna og því væri hún óheimil þar sem hennar væri ekki getið í lögunum.

Í minnisblaði Logos segir að með túlkun héraðsdóms sé í raun komist að þeirri niðurstöðu að lánveitanda sem vilji lána í erlendum myntum hér á landi sé óheimilt að gengisbreyta láninu áður en það er greitt út og innheimta það í íslenskri mynt. Því sé í raun verið að leggja kostnað og fyrirhöfn á lántaka fyrir það eitt að taka erlent lán. Með því sé veiting erlendra lána gerð erfiðari og minna aðlaðandi fyrir lánveitendur og það sé öllum líkindum brot á 40. gr. EES-samningsins um frjálst flæði fjármagns.

Hefur ekki fengið vægi í umræðunni

Stefán Már Stefánsson, prófessor við lagadeild Háskóla Íslands, sagði í samtali við fréttastofu að í málinu lægi ekki fyrir neitt álit EFTA-dómstólsins enda hefði ekki verið lögð fram krafa um ráðgefandi álit dómstólsins. Því hefði þetta sjónarmið ekki fengið neitt vægi í umræðunni.

Stefán Már sagði jafnframt að ef EFTA-dómstóllinn hefði í ráðgefandi áliti komist að þeirri niðurstöðu að þessi túlkun á vaxtalögunum, þ.e. bann við gengistryggingu, teldist hindrun á frjálsu flæði fjármagns þá hefðu íslenskir dómstólar eflaust tekið tillit til þess í dómsniðurstöðum sínum. Hins vegar fengist ekki svar við því þar sem aldrei hefði verið byggt á þeim lagarökum fyrir dómi.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×