Innlent

Stærsti sumarboðinn sýnir sig á Skjálfanda

Kristjana Guðbrandsdóttir skrifar
Steypireyðurin fór nálægt Náttfara og þótti tilkomumikil sýn.
Steypireyðurin fór nálægt Náttfara og þótti tilkomumikil sýn. Mynd/Helga Kristín
Helga Kristín Torfadóttir var meðal farþega á hvalaskoðunarbátnum Náttfara þegar sást til steypireyðar á Skjálfandaflóa. „Það voru ekki margir í þessari ferð, sem er miður því það var mikið líf í hafinu. Við sáum líka fjölda höfrunga og hrefnu. Fólk fagnaði og hrópaði upp yfir sig þegar steypireyðurin gerði vart við sig. Hún var nálægt okkur og sýndi okkur sporðinn á sér nokkrum sinnum.“

Steypireyður er stærsta dýrategund jarðar og getur orðið allt að 30 metrar að lengd og 200 tonn að þyngd.

Þessi steypireyður var ekki svo stór um sig að sögn Helgu Kristínar. „Ég myndi áætla að hún hafi verið um það bil 21-25 metrar á lengd, sporðurinn einn var líklega um fjórir metrar í þvermál og sýnin er tilkomumikil.“

Tilkomumikil sýn Steypireyður er stærsta dýrategund jarðar og getur náð allt að 30 metra lengd. Þessi steypireyður er þó líklega 21-25 metrar að lengd. Mynd/Helga Kristín
Steypireyður er farhvalur og ferðast á norðurslóðir eftir æti á vorin og á sumrin. Hafið umhverfis Ísland telst eitt mikilvægasta fæðusvæði steypireyðar.

Dýrin eru ekki algeng sjón en nokkur hafa vanið komur sínar í Skjálfandaflóa á vorin segir áhöfn Náttfara og er því sumarboði þar fyrir norðan, eins konar lóa þeirra Húsvíkinga að þeirra sögn.

Steypireyður hefur verið alfriðuð frá árinu 1966 og er í útrýmingarhættu. Tegundin hefur ekki náð að rétta úr kútnum og telur Hafrannsóknastofnun Íslands að stofnstærðin hér við land nemi um eitt þúsund dýrum. Hafrannsóknastofnun hefur staðið fyrir merkingum á steypireyði síðustu ár til að kortleggja ferðir hvalsins og hefur komist að því að sömu dýr hafa sést við strendur Máritaníu og Íslands.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×