Innlent

Staðbundin undanþága möguleiki

Á fallegum haustdegi getur verið gaman að gefa álftum, gæsum og öndum við Tjörnina í Reykjavík. Álft og gæs eru hins vegar ekki aufúsugestir til sveita þar sem fuglinn veldur sums staðar stórtjóni. Fréttablaðið/Anton
Á fallegum haustdegi getur verið gaman að gefa álftum, gæsum og öndum við Tjörnina í Reykjavík. Álft og gæs eru hins vegar ekki aufúsugestir til sveita þar sem fuglinn veldur sums staðar stórtjóni. Fréttablaðið/Anton
Enn er unnið að söfnun upplýsinga vegna ágangs af völdum álfta og gæsa á ræktarlönd. Að gagnaöfluninni standa umhverfisráðuneyti, Umhverfisstofnun, Náttúrufræðistofnun Íslands og Bændasamtök Íslands, að því er fram kemur í svari Svandísar Svavarsdóttur umhverfisráðherra við fyrirspurn Ásmundar Einars Daðasonar, þingmanns Framsóknarflokks, á Alþingi í lok ágúst.

"Þessi vinna er bara í gangi," segir Steinar Rafn Beck Baldursson, sérfræðingur á sviði náttúruauðlinda hjá Umhverfisstofnun. Hann kveðst hins vegar ekkert geta sagt til um hvenær gagnaöfluninni kunni að ljúka.

Komið hefur fram að ágangur andfugla í ræktarlönd hefur hrakið bændur frá því að rækta korn. Þá hafa bændur farið þess á leit að fá að skjóta fugla til þess að fæla þá frá ræktarlöndum. Steinar segir ólíklegt að tekin verði ákvörðun um að heimila einhverjar slíkar aðgerðir fyrr en að fengnum niðurstöðum könnunarinnar á umfangi tjóns eftir fuglinn. "Svo er líka verið að skoða hvað gert hefur verið í öðrum löndum," segir hann.

Í svari sínu á þingi segir umhverfisráðherra ástæðu til að fylgjast með beitarálagi af völdum gæsa og álfta, bæði á ræktarlöndum og náttúrulegum svæðum. Þá eigi að bregðast við að fengnum betri upplýsingum um ágang af völdum gæsa og álfta.

"Ákvæði laga veita umhverfisráðherra ekki leyfi til þess að aflétta friðun álfta en ráðherra hefur þó heimild til þess að veita staðbundna undanþágu frá lögunum til að bregðast við tjóni," segir í svari ráðherra. Þar kemur einnig fram að álftastofninn hafi stækkað úr sautján þúsund fuglum árið 1986 í 29 þúsund fugla árið 2010.

olikr@frettabladid.is



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×