Viðskipti innlent

Staða SpKef miklu verri en menn þorðu að vona

Þorbjörn Þórðarson skrifar
Staðan á Sparisjóðnum í Keflavík er miklu verri en menn töldu þegar Landsbankinn tók hann yfir, en bankinn hefur framkvæmt mat á virði eigna og munar þar 20 milljörðum króna á því mati sem ríkið kynnti í vor. Sparisjóðurinn er með neikvætt eigið fé upp á 30 milljarða.

Þegar Landsbankinn tók yfir Sparisjóðinn í Keflavík (SpKef) í vor var greint frá því opinberlega að eigið fé sparisjóðsins væri neikvætt upp 11,2 milljarða króna. Samtals vantaði því 19,4 milljarða upp á að hann uppfyllti kröfur Fjármálaeftirlitsins um lágmarks eigið fé.

Til grundvallar þessu mati var skoðun endurskoðenda sem voru fengnir af ríkinu og sparisjóðnum sjálfum til meta virði útlána SpKef, en Landsbankinn áskildi sér rétt til að framkvæma eigið mat á virði útlána.

Nú liggur það mat fyrir og samkvæmt heimildum fréttastofu er staðan á SpKef miklu verri en menn þorðu að vona í vor. Það er mat sérfræðinga Landsbankans að eigið fé sparisjóðsins sé neikvætt um 30 milljarða króna. Það skeikar því um tæplega nítján milljarða króna frá mati endurskoðendanna sem lá til grundvallar tilkynningu um samruna frá mars síðastliðnum.

Miðað við þetta mat Landsbankans þarf SpKef, sem starfar í dag undir merkjum Landsbankans, ekki 19,4 milljarða til að uppfylla kröfur FME, heldur alls 38 milljarða króna. Ljóst er, miðað við þetta, að þessir peningar geta bara komið úr einni átt, úr ríkissjóði þar sem Landsbankinn að langstærstu leyti í ríkiseigu.

Kristján Kristjánsson, talsmaður Landsbankans, sagði í samtali við Stöð 2 að þegar skrifað var undir yfirtökuna í vor hefðu aðilar áskilið sér rétt til að leiða til lykta ágreining um virði útlánasafnsins undir sérstaka óháða úrskurðarnefnd sem myndi síðan skila bindandi áliti. Hann sagði því útilokað að samruninn yrði látinn ganga til baka enda væri hann full frágenginn. Ekki náðist í Steingrím J. Sigfússon, fjármálaráðherra við vinnslu fréttarinnar. thorbjorn@stod2.is





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×