Innlent

Staða Sigmundar sterk fyrir kjördæmisþing

Sveinn Arnarsson skrifar
Staða Sigmundar Davíðs er talin sterk
Staða Sigmundar Davíðs er talin sterk
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins virðist standa vel að vígi fyrir tvöfalt kjördæmisþing flokksins sem haldið verður í Skjólbrekku í Mývatnssveit á morgun. Í samtölum við formann félaganna vítt og breitt um kjördæmið kemur fram mikill stuðningur við formanninn.

Framsóknarmenn munu velja framboðslista sinn í kjördæminu á svokölluðu tvöföldu kjördæmisþingi en tvöfalt fleiri fulltrúar eiga seturétt á þinginu en venjulega. Um 370 flokksmenn, frá Fjallabyggð í vestri til Djúpavogs í austri, eiga seturétt á þinginu er líklegt er að á þriðja hundrað manns taki þátt.

Sigmundur er bjartsýnn á að ná að landa sigri á kjördæmisþinginu. „Ég er hæfilega bjartsýnn fyrir þinginu þó ég taki engu sem gefnu. Ég tel mig eiga stuðningsmenn víða í kjördæminu sem munu mæta á þingið,“ segir Sigmundur sem hefur ekki ákveðið hvað hann geri nái hann ekki oddvitasætinu. „Í ljósi bjartsýni á útkomuna hef ég ekki hugleitt hvað ég muni gera í þeirri stöðu.“

Svo virðist sem stuðningur við Sigmund Davíð sé mikill í Þingeyjarsýslum og á Austurlandi. Þorgrímur Sigmundsson, formaður félagsins á Húsavík, segir miklu máli skipta að Sigmundur sigri og haldi áfram formennsku í flokknum. „Ég vonast eftir því að hann fái gott umboð sem veganesti inn á flokksþingið. Maður sem hefur skilað svo gríðarlegum verkefnum í hús sem flestir töldu ómögulegt á skilið að halda áfram þessum góðu verkum,“ sagði Þorgrímur.

Um 110 flokksmenn úr Framsóknar­félaginu á Akureyri eiga seturétt á þinginu og vonast Óskar Ingi Sigurðsson, formaður félagsins, til að sem flestir mæti á flokksþingið. Félagið á Akureyri hefur verið höfuðvígi Höskuldar Þórhallssonar og skiptir miklu máli fyrir árangur hans að sem flestir úr Akureyrarfélaginu mæti til þings.

Einnig sækjast Líneik Anna Sævarsdóttir og Þórunn Egilsdóttir, sitjandi þingmenn flokksins, eftir því að fella formanninn úr stóli oddvita. Sigmundur Davíð segir það ekki vera merki um að þær vilji hann burt. „Það er oft þannig að þegar einstaklingar sækjast eftir sætum númer tvö og þrjú, þá vilja þeir sýna styrk og bjóða sig einnig fram í forystu,“ segir Sigmundur. 

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu




Fleiri fréttir

Sjá meira


×