Viðskipti innlent

Staða sem minnir um margt á þjófnað

Óli Kristján Ármannsson skrifar
Á ferðinni með Marel. Lars Grundtvig, einn af stærstu hluthöfum Marel eftir samruna við Scanvægt 2006, ræðir við Frans-Josef Rothkötter, einn eigenda kjúklingasláturhússins í Emsland í Þýskalandi, í skoðunarferð Marel þangað sumarið 2008.
Á ferðinni með Marel. Lars Grundtvig, einn af stærstu hluthöfum Marel eftir samruna við Scanvægt 2006, ræðir við Frans-Josef Rothkötter, einn eigenda kjúklingasláturhússins í Emsland í Þýskalandi, í skoðunarferð Marel þangað sumarið 2008. Fréttablaðið/ÓKÁ
Danski fjárfestirinn Lars Grundtvig segir höfnun Seðlabanka Íslands á umsókn hans um undanþágu frá gjaldeyrishöftum sýna að undanþágurnar séu sjónarspil. Vísar hann til þess að hann sæki um í aðkallandi aðstæðum sem orðið hafi til vegna breytinga á dönskum lögum um erfðarétt.

„Ég er nú 73 ára og sú stund nálgast óðum að fyrirtæki mitt gengur að erfðum,“ skrifar Grundtvig í opnu bréfi til Más Guðmundssonar seðlabankastjóra í Markaðnum í dag. Verði ekki leyst úr málinu í tæka tíð ógni það fjölda starfa í Danmörku.

Fjárfestingarfélag Grundtvigs og fjölskyldu hans eignaðist 18 prósenta hlut í Marel, þegar fyrirtækið tók yfir Scanvægt, danskan keppinaut á sviði matvælavinnsluvéla, í ágúst 2006.

Þá segist Grundtvig telja viðvarandi gjaldeyrishöft geta valdið óafturkræfum skaða á framtíðarefnahagshorfum Íslands.

„Þótt færa megi fyrir því rök að íslenskt efnahagslíf sé enn að ná sér, þá á hið sama við um mörg önnur Evrópulönd. Þau lönd, Kýpur þar á meðal, geta hins vegar ekki reitt sig á gjaldeyrishöft og torvelt að sjá af hverju Ísland ætti að geta það,“ segir hann og kveðst fylgjast með því í forundran hvernig íslenskir stjórnmálamenn hafi í raun tekið forræði yfir eigum hans í landinu og það þótt hann hafi tekið hér virkan þátt í að leggja efnahagslífinu lið með fjárfestingu og stjórnarsetu í Marel.

„Staðan er um margt tekin að minna á þjófnað.“

Grundtvig bendir á að tekið hafi Seðlabankann þrettán mánuði að hafna umsókn hans þótt vinnureglur bankans kveði á um að erindum sé svarað innan fjögurra vikna. Þetta og málsmeðferðin öll endurspegli slæma meðferð sem hann og aðrir fjárfestar megi þola.

„Meðferð sem er orðin almennt kunn meðal hugsanlegra fjárfesta í öðrum löndum. Með slíkri framkomu við fjárfesta gerir þú þá fráhverfa Íslandi og grefur undan mörgum framtíðarmöguleikum Íslands á umtalsverðri erlendri fjárfestingu.“

Um leið telur Grundtvig að fjari undan skilningi Evrópuþjóða á viðvarandi gjaldeyrishöftum hér.

„Íslensk stjórnvöld leika rússneska rúllettu með aðgang Íslands að fjármagnsmörkuðum Evrópu og að því líður að aðildarríki Evrópusambandsins og stjórnmálamenn þeirra taka að spyrja hvers vegna Íslandi sé enn heimill aðgangur að innri markaði Evrópu á meðan landið hunsar eina af helgustu greinum Samningsins um evrópska efnahagssvæðið (banni við fjármagnshöftum).“


Tengdar fréttir

Marel kaupir danskan keppinaut

Marel hf. hefur keypt alla hluti í danska matvælavélaframleiðandanum Scanvægt International. Kaupverðið nemur 109,2 milljónum evra eða tæplega tíu milljörðum íslenskra króna.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×