Innlent

Spyr hvort borgin stefni að aðskilnaði við landsbyggðina

Höskuldur Þórhallsson.
Höskuldur Þórhallsson. Mynd/Pjetur

Þess var krafist á Alþingi í dag að smíði nýs Landspítala yrði frestað meðan framtíð Reykjavíkurflugvallar væri óljós. Þá var spurt hvort borgin stefndi að algjörum aðskilnaði við landsbyggðina.

Sameiginleg ákvörðun ráðamanna Reykjavíkurborgar og samgönguráðherra í gær um að slá af samgöngumiðstöð við Loftleiðahótelið leiddi til viðbragða á Alþingi.

Ögmundur Jónasson samgönguráðherra kvaðst telja þetta skynsamlegri lausn í ljósi efnahagsþrenginga að byggja fremur vestan megin við völlinn. Þar væru flugplön til staðar og framkvæmdin yrði miklu ódýrari og í samræmi við vilja beggja. Farsæl niðurstaða væri að fást.

Kristján L. Möller, fyrrverandi samgönguráðherra, sagði á Bylgjunni í hádeginu að niðurstaðan þýddi að innanlandsflugið færi til Keflavíkur.

Jón Gunnarsson, þingmaður Sjálfstæðisflokks, sagði augljóst að meðan framtíð flugvallarins í Reykjavík væri óljós yrði að slá á frest öllum framkvæmdum við Landspítala háskólasjúkrahús.

Höskuldur Þórhallsson, þingmaður Framsóknarflokks, sagði að forsvarsmenn borgarinnar þyrftu nú að ákveða hvort þeir ætluðu að stjórna borg sem ætlaði að vera bara höfuðborg fyrir þá sjálfa en ekki alla landsmenn.

"Erum við hugsanlega að tala hérna um algjöran aðskilnað milli borgar og landsbyggðar," spurði Höskuldur.







Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×