Innlent

Sprengja í „herraklippingum“

Jakob Bjarnar skrifar
Árið 2005 tóku karlar framúr konum og hafa ekki litið til baka síðan.
Árið 2005 tóku karlar framúr konum og hafa ekki litið til baka síðan.
Sprenging hefur orðið á undanförnum árum í ófrjósemisaðgerðum sem gerðar hafa verið á körlum – herraklippingunum svokölluðu. Árið 2005 fóru karlmenn framúr konum í ófrjósemisaðgerðum og hafa ekki litið til baka eftir það. Karlmenn sem Vísir hefur rætt við, og hafa farið í klippingu, segja ákvörðunina ekki síst byggða á femínískum sjónarmiðum; þeim að láta ekki konuna bera eina ábyrgð á því að takmarka barneignir. Eins og Gunnar Sigurðsson sjónvarpsmaður segir: „Hvers vegna að ganga um með hlaðna byssu ef þú ætlar ekki að skjóta?“

Gunnar hefur fór í herraklippingu fyrir um tveimur árum og það sem meira er, hann er að hvetja vin sinn Viðar Inga Pétursson auglýsingamann hjá 365 til að fylgja sínu góða fordæmi. Viðar hefur verið mjög tvístígandi, nú í um ár. Báðir eru þeir til þess að gera nýbakaðir feður. En þetta er ákvörðun sem reynir á.

Alger umsnúningur

Sé rýnt í tölur frá Landlæknisembættinu, sem taka til áranna 1981 til 2014, má sjá að árið 2005 taka karlmenn fram úr konum hvað snertir fjölda. Þá undirgengust 280 konur ófrjósemisaðgerð en 285 karlar. Eftir þetta hafa þeir verið fleiri og hefur munurinn aukist ár frá ári. Árið 2014 voru karlmenn 463 á móti 121 konum. Þetta má glögglega sjá á meðfylgjandi línuriti.

Árið 2014 voru karlmenn ríflega um áttatíu prósent þeirra sem fóru í slíkar aðgerðir en fyrir áratug voru þeir um 40 prósent af heildarfjölda. Fyrir tuttugu árum voru þeir 13 prósent þannig að þróunin er klár.

Sjá hér tölur yfir aðgerðirnar. Samkvæmt upplýsingum frá Landlæknisembættinu er talna yfir árið 2015 að vænta innan mánaðar.

Síðasta púslið komið í hús

En, hvað veldur þessari þróun? Herraklipping er örugg og tiltölulega ódýr getnaðarvörn. Einn þeirra sem hefur undirgengist slíka aðgerð er Gunnar Sigurðsson sjónvarpsmaður. „Já, ég fór í þessa aðgerð eftir að síðasta púslið datt í hús?“

Viðar og Gunnar. Tveir vinir og annar óklipptur.
Síðasta púslið?

„Já, hornpúslið. Dóttirin. Síðasta púslið í púsluspilinu. Þegar þú áttar þig á því að það er orðið fullkomið þá var þetta augljóst skref. Ég hef búið í sveit og þetta er spurning um að þekkja sinn vitjunartíma. Hún er tveggja ára í dag. Nokkrum mánuðum eftir að hún kom í hús. Ég á fjögur börn,“ segir Gunnar sem kann að koma orðum að þessu.

Hinn femíníski snúningur á málinu

Gunnar segir að þetta snúist meðal annars um að vita hvað menn vilja í lífinu.

„Þegar þú ert kominn með Volvóinn inní skúr þá ertu ekkert að rembast við að fá annan bíl í hús. Þú reynir bara að hugsa vel um hann. En, hinn stóri pósturinn er hinn femíníski snúningur. Þetta krefst þess ekki að mín elskuleg þarf að dæla í sig hormónum til að koma í veg fyrir að við eignumst fleiri börn. Þetta var rætt í þaula, ég tók ekki þessa ákvörðun einn. En niðurstaðan var sú: En ekki hvað. Í staðinn fyrir að hún haldi áfram að dæla í sig hormónum og getnaðarvörnum þar sem eftir er þroskatímabils okkar, af hverju ekki að ég geri það. Ef mig langar í annað barn, þá er það alveg hægt, ég er ekki ófrjór, ... það er ein stunga. Vont í einn dag,“ segir Gunnar og vísar til þess að ófrjósemisaðgerðir karla eru ekki óafturkræfar, en það eru þær hins vegar í tilfelli kvenna.“

Stóðhesturinn og Gunnar

Allstaðar þar sem fjallað er um þetta á fræðilegum nótum er tekið fram að karlmennskan sé óskert.

„Það er nú það sem er svo skemmtilegt við þetta,“ segir Gunnar. „Það er alltaf framleiðsla. Það (sæðið) deyr eftir nokkra daga, kemst ekkert út, loftleysið. Alltaf hægt að ná í nokkur kvikindi ef í harðbakkann slær.“

Gunnar spyr: Til hvers að ganga um allt með hlaðna byssu ef ekki standi til að skjóta?
Gunnar segir að þetta hafi verið erfið ákvörðun, klárlega. „Maður hafði ekkert spáð í þessu þannig. En þegar maður fer að velta þessu fyrir sér, ég hef búið í sveit og sé hvernig dýrin verða, spurði ég lækninn í þaula: Er ég að fara að breytast eitthvað? Verða ég eins og stóðhesturinn sem fékk ekki lengur að vera stóðhestur? Auðvitað spá allir í því. Það vill enginn breytast.“

Karlmennskan óskert

Vel hefur gengið eftir aðgerðina. „Enn sem komið er á ég ekki fleiri börn eða von á fleiri börnum. En, ég á eftir að ganga þann erfiða veg að ganga fyllilega úr skugga um þetta; fara með sýni í fyrirtæki og láta athuga hvort aðgerðin hafi heppnast. Ég hef það ekki í mér. Að vera með hálf fullt glas af einhverju og skella því á borðið. Glasið mitt er alltaf hálffullt.“

Og í allstaðar þar sem fjallað er um herraklippingarnar er tekið fram að karlmennskan er á engan hátt skert. Ekkert hefur breyst í lífi Gunnars, ekki neitt. Hann segir engan skaða hljótast af. Í dag er hann diet kók: „Ef eitthvað er þá er ég orðinn rólegri. En sennilega er það miðöldrun. En, engar aukaverkanir.“

Og Gunnar segir að aðgerðin hafi ekki verið erfið: „Þetta eru tvær leiðir sem læknirinn býður uppá. Í mínu tilfelli; deyfing, vakandi og horfir á herlegheitin eða þú lætur svæfa þig, en læknirinn mælir með því að láta svæfa sig. Þetta var eins og að leggja sig yfir hádegisfréttum. Ég vaknaði tuttugu mínútum seinna og og var góður.“

Ekkert mál að láta gelda sig

Víkur þá sögunni að Viðari vini Gunnars sem hefur verið mjög tvístígandi, nú í tæpt ár. Gunnar segist ekki geta stigið inní samband hans og konu hans. En hann reynir að leggja honum til það besta. „Ég hef verið að gauka þessu að honum, að það sé ekkert mál að láta gelda sig. Ég bý yfir þessari reynslu og get verið með honum í gegnum þetta. Ég hvet alla til að gera þetta í staðinn fyrir að ganga um með hlaðna byssu og þú ætlar ekki að skjóta. Taktu þá bara skotið úr.“

Gríðarleg viðhorfsbreyting hefur orðið, og líta karlmenn nú svo á að þeir beri allt eins ábyrgð á barneignum og konur, ef marka má þá Gunnar og Viðar.
Viðar er nýbakaður faðir. Hann á nú þrjú börn og Gunnar segist hafa hvatt hann til að fylgja sínu fordæmi. „En, enginn þrýstingur. Hann hefur spurt mig útí þetta og vissi þetta manna fyrstur; ég þurfti að ráðfæra mig við annað karldýr. Ég held að hann sjái engan mun á mér. En hann er ekki búinn að segja mér það, ef hann sæi breytingar á mér. Kannski er ég það og það segir mér enginn frá því? Þess vegna horfi ég djúpt í augun á fólki, er hann orðinn snarruglaður hann Gunnar. Er ég ekki bara sami maðurinn?“

Smeykur þegar á að eiga við djásnin

Gunnar ítrekar, og að öllu gríni slepptu, að það sem hafi einkum ráðið úrslitum með það að hann fór í herraklippinguna hafi verið hið femíníska sjónarhorn. Viðar Ingi Pétursson segir það rétt, að Gunnar vinur sinn hafi mælt eindregið með þessu. Hann segist hafa verið alvarlega að íhuga þetta í tæpt ár. „Ég hugsa að ég vaði í þetta, kannski. Ég hef alvarlega verið að velta þessu fyrir sér. Ég er kominn með þrjú og kominn yfir fertugt og ástæðulaust að vera með smokka og pillur og hettur og eitthvað svona.“

Og Viðar telur þetta hið rétta í stöðunni. „Að axla ábyrgð sem karlmaður. Láta það ekki hvíla á konunni.“

En, það er eitthvað sem nagar?

Kári spyr: En, hvað með greindarfar þjóðarinnar?
„Já, auðvitað er maður smeykur. Að það sé eitthvað verið að eiga við djásnin á manni. En, reynslusögur annarra eru hughreystandi. Yfirmaður minn lætur vel af þessu, hann er búinn að fara.“

Að standa sína plikt gagnvart mannkyni

Mikil viðhorfsbreyting hefur átt sér stað, eins og línuritið sýnir svo glögglega. Til viðmiðunar má til dæmis benda á frétt í Morgunblaðinu frá árinu 1994, þar sem rætt er við Reyni Þór Geirsson, sérfræðing í kvensjúkdómalækningum þar sem hann telur að fjölga þurfi ófrjósemisaðgerðum á Íslandi, þá vegna offjölgunar mannkyns. Merkilegt er í máli hans að það er líkt og ekki hvarfli að honum sá möguleiki að karlmenn fari í slíka aðgerð.

Og þá kemur annað sjónarmið til sögunnar, sem er það sem Kári Stefánsson forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar hefur viðrað og vísað til rannsókna sem ÍE hefur staðið í og snýr að greindarfari þjóðar. Hann segir að þeir menntuðu eignist stöðugt færri börn. Og því sé sú þróun óhjákvæmileg að greindarfari almennt fari hrakandi. Þetta er rökrétt.

En, bæði Gunnar og Viðar segjast vera búnir að skila sínu. Þeir séu vel yfir vísitölunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×