Viðskipti innlent

Sprengisandsleið opnast mun fyrr en í meðalári

Kristján Már Unnarsson skrifar
Sprengisandur er hæsti hálendisvegur Íslands.
Sprengisandur er hæsti hálendisvegur Íslands. Mynd/Stöð 2.
Leiðin um Sprengisand er orðin fær, bæði um Bárðardal og Skagafjarðarleið. Eyjafjarðarleiðin upp á Sprengisand er hins vegar enn lokuð.

Þetta er níu dögum fyrr en í meðalári sem Sprengisandur opnast en sjaldgæft er að þessi helsta hálendisleið landsins sé akfær fyrir lok júnímánaðar. Undanfarin fimm ár hefur hún að meðaltali opnast 7. júlí.

Frá Sprengisandsleið við Tómasarhaga. Skammt frá eru gatnamótin inn á Gæsavatnaleið.Stöð 2/Sveinn Arnarsson.
Kjalvegur og Kaldadalsvegur höfðu áður opnast, einnig Landmannaleið. Þá er Öskjuleið orðin fær og einnig Kverkfjallaleið.

Leiðirnar að Fjallabaki eru enn ófærar, bæði Fjallabaksleið nyrðri og Fjallabaksleið syðri. Þá er leiðin að Lakagígum lokuð. Á Vestfjörðum eru allir fjallvegir orðnir færir, þar á meðal Þorskafjarðarheiði. Norðanlands er orðið fært inn á Flateyjardal en ófært er í Fjörður.

Upplýsingar um ástand fjallvega má sjá á hálendiskorti Vegagerðarinnar. Tekið skal fram að þótt hálendisvegir séu sagðir færir á það yfirleitt aðeins við um jeppa og fjórhjóladrifsbíla og gildir í sumum tilvikum aðeins um öfluga jeppa.

Við gatnamót Gæsavatnaleiðar og Sprengisandsvegar við Tungnafellsjökul.Stöð 2/Sveinn Arnarsson.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×