Innlent

Sprautuðu 1200 lítrum af vatni í vatnsslagnum

Nanna Elísa Jakobsdóttir skrifar
Fötur, byssur og blöðrur. Allt var nýtt í slagnum í dag.
Fötur, byssur og blöðrur. Allt var nýtt í slagnum í dag. Vísir/Andri Marinó
„Okkur langaði eftir svona langan vetur að fagna sumrinu,“ segir Fannar Páll Aðalsteinsson, markaðsstjóri hjá 66°Norður en hann stóð fyrir vatnsslagnum H2O15 á Lækjartorgi í dag ásamt Atla Bollasyni. „Eins vorum við að kynna regnfatnaðinn okkar. Það er engin betri leið til að prófa regnkápurnar en í alvöru vatnsstríði.“

Leikurinn hófst klukkan tvö í dag og kepptu sex tíu manna lið í þremur bardögum. „Þetta gekk út á það að hvert lið fékk vatnsfötur, vatnsbyssur og vatnsblöður og átti að klára að sprauta öllu vatninu yfir hitt liðið,“ útskýrir Fannar. „Það lið sigraði lotuna.“ Slökkviliðið hjálpaði til við að koma vatni á staðinn en Fannar segir að klárast hafi um 1200 lítrar í slagnum í dag. „Það var ansi góð mæting og ekki leiðinlegt veður sem við fengum, alveg sól og blíða. Við vorum rosalega ánægðir með útkomuna.“ Breiður hópur af fólki tók þátt í slagnum í dag. „Í fyrsta bardaganum voru aðallega krakkar um tvítugt, í öðrum bardaganum voru yngri krakkar og svo náðum við að plata foreldrana til að taka þátt í síðasta bardaganum.“

Til stendur að halda viðburðinn árlega og vonast Fannar eftir því að geta þróað hann ár frá ári. „Við ætlum að athuga hvort við getum látið þetta stækka. Erum strax farnir að hlakka til H2O16 að ári.“

Myndir frá viðburðinum má sjá hér að neðan. 

Fólk á öllum aldri tók þátt.Vísir/Andri Marinó
Þvílíkt fjör.Vísir/Andri Marinó



Fleiri fréttir

Sjá meira


×