Erlent

Spilavíti sektað fyrir að eiga við spilakassa

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Melbourne's Crown hefur gengist við broti sínu.
Melbourne's Crown hefur gengist við broti sínu. Vísir/getty
Stærsta spilavíti í Ástralíu hefur verið gert að greiða sekt sem nemur um 23 milljónum íslenskra króna eftir að í ljós kom að það hafði átt við spilakassa sína.

Starfsmenn spilavítisins, sem ber nafnið Melbourne's Crown, höfðu um nokkurt skeið hulið takka á spilakössunum. Eftirlitsmenn segja í samtali við breska ríkisútvarpið að það hafi takmarkað möguleika spilaranna á að velja upphæðir sem þeir vildu leggja undir. Þeir hafi aðeins getað valið á milli þess að leggja hámarks- eða lágmarksupphæð undir hverju sinni.

Eftirlitsmennirnir sögðu þó við aðalmeðferð málsins að sigurlíkur spilaranna hafi þó ekkert breyst meðan á svindlinu stóð. Þetta hafi þó hins vegar orðið til þess að fleiri hafi ákveðið að leggja hámarksupphæð undir við hverja spilun - og fjárhagstapið því meira en ætla mætti. Engin þjóð tapar jafn miklu í fjárhættuspilum miðað við höfðatölu en Ástralir.

Sektin er sú hæsta sem lögð hefur verið á spilavíti í Ástralíu. Vonast þarlend yfirvöld til þess að dómurinn verði fordæmisgefandi og að önnur spilavíti muni ekki eiga við spilakassa sína án leyfis.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×