Viðskipti innlent

Sparifé 30 þúsund Íslendinga úr hættu

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Höfuðstöðvar Allianz.
Höfuðstöðvar Allianz. Vísir/AFP
Seðlabanki Íslands hefur gert samkomulag varðandi samninga sem Allianz á Íslandi hefur boðið viðskiptavinum sínum hér á landi. Samkomulagið gerir erlenda tryggingafélaginu og viðskiptavinum þess hér á landi kleift að viðhalda óbreyttu samningssambandi. Er þannig komið í veg fyrir mögulegt tjón neytenda samhliða því að draga úr neikvæðum áhrifum samninganna á greiðslujöfnuð Íslands. Með því er stuðlað að frekari stöðugleika í greiðslujafnaðar- og gengismálum hér á landi, í samræmi við markmið laga um gjaldeyrismál og reglna settra á grundvelli þeirra að því er segir í tilkynningu frá Seðalbankanum.

Fyrr í sumar var fjallað um áhyggjur Allianz og viðskiptavina tryggingafélagsins vegna fyrirhugaðra reglubreytinga hjá Seðlabankanum. Áttu þær að fela í sér að greiðslur til erlendra tryggingafélaga yrðu ekki lengur heimilar. Taldi Seðlabankinn að starfsemi erlendra tryggingafyrirtækja á borð við Allianz væri brot á lögum um gjaldeyrismál. Var talið að sparnaður um 30 þúsund Íslendinga gæti verið í hættu að því er Andrés Magnússon, framkvæmdastjóri Samtaka verslunar og þjónustu, sagði við fréttastofu.

„Þá er markmiðið enn fremur að stuðla að jafnræði meðal aðila á sama markaði en reiknað er með að sá rammi, sem liggur til grundvallar samkomulaginu, verði hafður til hliðsjónar varðandi möguleika á hliðstæðu fyrirkomulagi fyrir innlenda aðila sem vilja bjóða sambærilegar afurðir. Þó er ljóst að tekið gæti einhvern tíma að vinda að fullu ofan af því ójafnræði sem skapast hafði,“ segir í tilkynningu Seðlabankans.

Til að draga úr neikvæðum áhrifum á greiðslujöfnuð Íslands felist í samkomulaginu að tryggingafyrirtæki komi með til landsins erlendan gjaldeyri til mótvægis við yfir helming framtíðariðgjaldagreiðslna sem fari úr landi á grundvelli núgildandi samninga yfir gildistíma samkomulagsins.

„Geri tryggingafélag nýja samninga kemur það með til landsins erlendan gjaldeyri til mótvægis við framtíðariðgjaldagreiðslur sem fara úr landi á grundvelli þeirra samninga yfir gildistíma samkomulagsins.“

Seðlabankinn væntir þess að með samkomulaginu í dag verði stigið stórt skref til að eyða þeirri óvissu sem fjöldi neytenda hefur búið við síðustu mánuði, jafnframt því sem stuðlað er að jákvæðum áhrifum á greiðslujöfnuð landsmanna og þar með auknum stöðugleika í efnahagslífi í landinu.


Tengdar fréttir

Gjaldeyrisviðskipti tryggingafélaga brjóti gegn lögum

Fjármagnsflutningar á fjórða tug þúsunda Íslendinga í tengslum við sparnað hjá erlendum tryggingafélögum verða stöðvaðir og verður þeim gert skylt að spara í íslenskum krónum á Íslandi í staðinn. Seðlabankinn telur að gjaldeyrisviðskipti þriggja íslenskra tryggingamiðlara sem selja þjónustu erlendra tryggingafélaga hér á landi brjóti gegn lögum um gjaldeyrismál.

Í höftum þurfa sömu reglur að gilda fyrir alla

Formaður stjórnar Landssamtaka lífeyrissjóða vonast til þess að umræðan um breyttar reglur Seðlabankans varðandi lífeyrissparnað almennings í útlöndum verði til þess að raunhæfar tillögur að afnámi gjaldeyrishafta komi fram.

Þurfa að færa sparnaðinn í krónur vegna haftanna

Starfsemi erlendra tryggingafélaga og sala þeirra á sparnaðarleiðum til einstaklinga hérlendis brýtur gegn lögum um gjaldeyrismál. Þrjátíu þúsund Íslendingar sem hafa safnað sparnaði erlendis gegnum umboðsmenn erlendra tryggingafélaga hér á landi eftir að höftum var komið á, þurfa að hætta því og færa sparnaðinn í krónur.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×