Erlent

Söngvari Sex Pistols styður Brexit, Trump og Farage

Hulda Hólmkelsdóttir skrifar
John Lydon
John Lydon Vísir/Getty
John Lydon, betur þekktur sem Johnny Rotten söngvari pönkhljómsveitarinnar Sex Pistols, segist styðja Donald Trump bandaríkjaforseta og úrsögn Bretlands úr Evrópusambandinu. Þá segir hann að honum finnist Nigel Farage, leiðtogi breska sjálfstæðisflokksins UKIP, frábær.

Í viðtali í sjónvarpsþættinum Good Morning Britain á mánudag var hann spurður hvaða afstöðu hann hefði til útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu.

„Verkalýðurinn hefur talað og ég er einn af þeim og ég stend með þeim,“ svaraði Lydon.

Spurður um hinn nýja Bandaríkjaforseta sagði Lydon hann vera flókinn mann sem hefði mátt þola rógburð frá „vinstri sinnuðu pressunni.“

„Ég var spurður hvort hann væri pólitískur Sex Pistol. Á vissan hátt, já,“ sagði Lydon.

„Það sem ég kann ekki við er að vinstri sinnuðu miðlarnir eru að reyna koma því orði á hann að hann sé rasisti og það er ekki rétt.“

Hann sagði að líkur væri á að eitthvað gott kæmi úr forsetatíð Trump vegna þess að hann ógnaði öðrum stjórnmálamönnum.

„Mér finnst gaman að fylgjast með þessu. Ég held að við gætum orðið vinir.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×