Erlent

Söngvari Eagles of Death Metal: „Morðingjarnir komust inn og drápu alla nema ungling sem faldi sig undir leðurjakkanum mínum“

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Joshua Hamme, söngvari Queens of the Stone Age, og Jesse Hughes, söngvari Eagles of Death Metal.
Joshua Hamme, söngvari Queens of the Stone Age, og Jesse Hughes, söngvari Eagles of Death Metal. vísir
Jesse Hughes, söngvari hljómsveitarinnar Eagles of Death Metal, segir að ein meginástæðan fyrir því að svo margir létust í Bataclan-tónleikahúsinu í París í hryðjuverkaárás þann 13. nóvember síðastliðinn sé sú að fólk vildi ekki yfirgefa ástvini sína þegar skothríðin hófst, heldur vernda þá og aðstoða. Alls létust 89 manns í Bataclan.

Þetta kemur fram í myndbroti sem birt var á fréttavefnum Vice í gærkvöldi. Þar ræðir Hughes í fyrsta skipti um árásina en í næstu viku verður viðtalið birt í heild sinni. Á meðal þess sem Hughes lýsir er þegar hryðjuverkamennirnir komust inn í búningsherbergi hljómsveitarinnar.

„Nokkrir földu sig inn í búningsherberginu okkar en morðingjarnir komust inn og drápu alla nema ungling sem faldi sig undir leðurjakkanum mínum. Fólk þóttist vera dáið og var svo óttaslegið.“

Allir meðlimir sveitarinnar komust lífs af úr árásinni en starfsmaður sveitarinnar, Nick Alexander, lést í árásinni. Þá létust einnig þrír starfsmenn plötuútgáfunnar Mercury Records, sem gefur út tónlist Eagles of Death Metal. Þeir hétu Thomas Ayad, Marie Mosser og Manu Perez.

Brot úr viðtalinu við Hughes má sjá hér að neðan.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×