Innlent

Sólheimakettinum Harrý úthýst af bókasafninu

Stefán Árni Pálsson skrifar
Sigrún mun sakna Harrý gríðarlega.
Sigrún mun sakna Harrý gríðarlega. Myndir/sólheimasafnið
Kötturinn Harrý hefur verið daglegur gestur á Sólheimasafninu síðastliðið ár og er hann afar vinsæll meðal starfsfólks og gesta safnsins.

Nú er komin upp sú staða að kötturinn má ekki lengur koma á safnið, þar sem hann heldur til, flestum til ánægju og yndisauka því einn viðskiptavinur bókasafnsins hefur kvartað undan kettinum. Er sá með mikið ofnæmi fyrir dýrinu.

„Ég bý hér í hverfinu og fer öðru hverju út á bókasafn með dóttur mína ,“ segir Sigrún Jónsdóttir, íbúi í Langholtshverfinu og hún á eftir að sakna kattarins.

Einstaklega sætur og góður

„Þar hefur alltaf verið einhver köttur síðustu mánuði, voðalega sætur og góður. Allir sem koma á safnið klappa honum og tala við hann. Ég fékk síðan að vita það fyrir svona mánuði síðan að það hafði borist kvörtun útaf Harrý. Ég var síðan á bókasafninu í morgun og ákvað að spyrja starfsfólkið hvernig þetta kattarmál fór alltaf saman. Þá fæ ég að vita að hann megi ekki koma lengur.“

Sigrún segir að kötturinn búi í nágrenninu og sé venjulegur heimilisköttur.

Sjá einnig: Ofsóttir hundaeigendur hafa fengið nóg

„Hann kemur þarna alltaf í heimsókn og fólkið á bókasafninu eru töluvert leitt yfir þessu öllu saman. Þetta fer bara gríðarlega í taugarnar á mér. Maður getur ekki lengur leigt sér íbúð í Reykjavík ef maður á gæludýr. Íslendingar virðast bara vera almennt á móti dýrum og ég er bara orðin leið á þessu. Það þykkjast allir einhvern veginn vera með ofnæmi og ef maður skoðar tölfræðina um það hversu margir eru með ofnæmi á Íslandi þá bara gengur þetta ekki upp.“

Það er alltaf annað bókasafn eða bókabíllinn

Sigrún telur þetta mikla afarkosti og skaða fyrir heildina. Hún telur að umrædd manneskja geti bara farið á annað bókasafn eða heimsótt bókabílinn.

Sjá einnig: Heilbrigðiseftirlitið úthýsir Baktusi kisu af kaffihúsi

„Þetta er bara óþolandi,  að ein manneskja geti bara ráðið því hvort kötturinn megi vera þarna inni. Ég er bara ekki sátt með það. Hann Harrý minn er bara svona líka rosalega vinsæll þarna. Þetta er bröndóttur venjulegur heimilisköttur. Vissulega er ég mikill kattavinur og almennt mikill dýravinur og mér finnst dýr bara vera venjulegur hluti af samfélaginu okkar.“

„Já, hann Harrý hefur verið að heimsækja okkur,“ segir Óskar Guðjónsson, safnstjóri á Sólheimasafninu. 

Lánþegi með bráðaofnæmi

„Það er lánþegi hér sem er með bráðaofnæmi fyrir köttum og bað vinsamlegast um að hann yrði ekki hér. Þetta er bara heimilisköttur hér í nágrenninu sem hefur vanið komu sína  hingað og fengið góðar viðtökur. Ungur köttur sem er meiri segja búinn að læra að opna hurðina hingað inn,“ segir Óskar léttur í bragði.

Óskar segir að sorgin sé mest hjá starfsfólkinu.

„Það hefur tekið þessu dálítið nærri sér, hann var vissulega skemmtilegur og mikill yndisauki hér á safninu. Hann var mestmegnis í barnadeildinni en fólk vissi alltaf af honum hér,“ segir Óskar sem bendir samt sem áður á það að reglurnar séu skýrar í svona málum. 

Einfaldlega bannað

„Katta- og hundahald er einfaldlega bannað í opinberum byggingum. Hann var í raun hér öllum stundum og við vissum aldrei hvenær hann kom eða fór. Hann droppaði bara inn þegar honum sýndist.“

Óskar segir að Harrý hafi verið mikið á safninu í vetur og þá aðallega sökum veðurs.

„Þetta var vissulega viss áhætta sem við vorum að taka. Hann gekk hér útum allt, hreiðraði um sig og hoppaði upp í stóla og sófa. Þetta var samt virkilega gaman, við vorum búin að setja hann á Facebook-síðu okkar og svona. Við viljum endilega að það komi samt fram að við erum ekki að gera þetta af mannvonsku eða kattarvonsku. Fólk hefur einfaldlega rétt til þess að mæta á bókasafn þar sem eru ekki kettir eða hundar.“

Óskar bætir því við að þetta sé einnig nokkur skaði í menningarlegu tilliti því í gegnum tíðina hafa margar bækur bókasafnsketti verið ritaðar um allan heim. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×