Innlent

Sögulegt samkomulag í loftslagsmálum

Ásgeir Erlendsson skrifar
Efni sem eru skaðleg andrúmsloftinu er að finna í fjölda kæliskápa og loftkælikerfa á Íslandi. En í dag náðist sögulegt alþjóðlegt samkomulag um að útrýma notkun þessara efna á næstu áratugum. Sérfræðingur hjá Umhverfisstofnun segir mikilvægt skref hafa verið stigið í loftslagsmálum.

Samkomulagið sem staðfest var í Rúanda í morgun er talið talið stórt skref í baráttunni gegn skaðlegum loftlagsbreytingum á jörðinni. Samkvæmt því verða ríki flokkuð í þrjá flokka varðandi niðurskurð á notkun tækja sem nota vetnisflúorkolefni sem eru aðallega ísskápar og loftkælikerfi.

Þróuð ríki í Evrópu og norður Ameríku munu draga úr notkun hinna skaðlegu efna um 10 prósent fyrir árið 2019 og um 85 prósent fyrir árið 2036.

Hér á landi hafa verið reglur í gildi undanfarin ár sem stuðla að minnkun þessara lofttegunda en vinna er þegar hafin við að útrýma þeim hér á landi. Vetnisflúorkolefni eru í mikilli notkun á Íslandi, sérstaklega í kælikerfum og loftkælingum bíla en hverfandi líkur eru á að hægt sé að finna nýjan ísskáp sem inniheldur efnið.

Ísak Sigurjón Bragason, sérfræðingur hjá Umhverfisstofnun, fagnar samkomulaginu og segir stórt skref hafa verið stigið.

„Notkun þessara efna hefur verið að aukast undanfarin ár, sérstaklega í þróunarríkjunum. Þetta eru mjög slæmar gróðurhúsalofttegundir. Þær eru kannski 3-4000 öflugri en koldíoxíð. Þetta eru stórar fréttir, góðar fréttir. “Segir Ísak.

Hann segir efnin í mikilli notkun á Íslandi. 

„Mörg stór kælikerfi keyra á þessum efnum og eldri ísskápar.“

Hann segir að mestu máli skipti að þróunarríki hafi gerst aðilar að samkomulaginu en þau fá rýmri tíma en þróuð ríki til að draga úr notkun efnanna.



„Þetta er að fá alla að sama borði því grípa þarf inn í og minnka notkun efnanna.“ Segir Ísak.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×