Bakþankar

Söguleg ummæli á sögulegum tímum

Ragnheiður Tryggvadóttir skrifar
Undanfarið hef ég haft það á tilfinningunni að samfélagið hafi sett í bakkgír. Það sé alls ekkert árið 2015 heldur séum við rétt að skríða yfir aldamótin nítjánhundruð. Allavega ekki komin langt fram á tuttugustu öldina. Af hverju er ég að segja svona vitleysu? Hvernig er hægt að tala um afturför á öld snjallsíma og internets, læknavísinda og rafmagnstannbursta?

Þetta er bara einhver tilfinning. Mér finnst bara eitthvað gamaldags í gangi, að einhver úrelt stemming svífi yfir vötnum.

Ég fæ þetta til dæmis á tilfinninguna þegar Framsóknarflokkurinn er eitthvað að vasast, sendir bréf til útlanda og tilkynnir eitthvað fyrir mína hönd þvert á loforð um annað, skipar rasista í mannréttindaráð eða dregur fram áratugagamlar teikningar Guðjóns Samúelssonar til að byggja eitthvað þjóðernislegt við Austurvöll, eða vill senda alla múslíma til Sádi-Arabíu og sitthvað svona.

Fæ þetta líka á tilfinninguna þegar ég horfi á viðtöl í sjónvarpinu við fólk sem hefur í fullri alvöru áhyggjur af útrýmingu hvíta kynstofnsins og vill flokka heiminn niður í lönd eftir lit.

Svo er ég einhverra hluta vegna alltaf að sjá myndir á Facebook af veiðimönnum stilla sér upp með nýskotnum gíraffa, svona svolítið eins og safaríveiðimenn árið 1901, en kannski hefur það alltaf verið.

Ég fæ líka þessa tilfinningu um að samfélaginu fari aftur þegar ég sé fólk stofna hópa á samfélagsmiðlum til að mótmæla hinsegin fræðslu í skólum! Já, já, það er til fólk sem sér ástæðu til þess að mótmæla því. Las nokkur ummæli hlustenda útvarps Sögu þeirrar skoðunar, sem tekin höfðu verið saman á Nútíminn.is. Ég gat ekki sett þau í samhengi við árið 2015. Vildi hreinlega að ég hefði ekki lesið þau, varð bara leið og yfir mig helltist tilfinningin um eitthvað úrelt.

Getur það verið að á framfara- og tækniöld fyrirfinnist svona ótrúleg þröngsýni? Það er auðvitað kaldhæðið að þessi viðhorf komist svo rækilega til skila einmitt fyrir tækniundrið internetið og kannski er það gott. Ég vona bara að þessi viðhorf einskorðist við fámennan hóp.






×