Handbolti

Snorri Steinn vann gömlu félagana í Sélestat

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Snorri Steinn Guðjónsson.
Snorri Steinn Guðjónsson. Vísir/Getty
Íslendingaliðin Nimes og Cesson-Rennes fögnuðu bæði sigri í leikjum sínum í frönsku úrvalsdeildinni í handbolta í kvöld. Bæði liðin snéru leiknum sér í hag í seinni hálfleiknum en gengið hefur verið ólíkt hjá þeim í upphafi tímabilsins.

Snorri Steinn Guðjónsson var markahæstur í sínum liði þegar Nimes vann 25-22 útisigur á Sélestat en Snorri Steinn lék með Sélestat áður. Snorri Steinn skoraði fimm mörk úr níu skotum en tvo af mörkum hans komu af vítalínunni. Ásgeir Örn Hallgrímsson var ekki með í kvöld.

Sélestat var þremur mörkum yfir í fyrri hálfleik og 11-10 yfir í hálfleik. Eftir jafnar upphafsmínútur í seinni hálfleiknum tóku Snorri Steinn og félagar frumkvæðið og lönduðu sigrinum.

Nimes hefur þar með unnið 3 af fyrstu 4 leikjum sínum á tímabilinu og er með því meðal efstu liða deildarinnar.

Guðmundur Hólmar Helgason skoraði 3 mörk en Geir Guðmundsson komst ekki á blað þegar Cesson-Rennes vann þriggja marka heimasigur á Saint Raphael 25-22. Cesson-Rennes liðið var þremur mörkum undir í upphafi seinni hálfleiks en tók þá öll völd á vellinum og landaði flottum sigri.

Cesson-Rennes var að vinna þarna sinn fyrsta sigur á leiktíðinni en fyrstu þrír leikir liðsins höfðu tapast. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×