Innlent

Slökktu í einnota grilli mótmælenda við heimili Bjarna Benediktssonar

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Frá mótmælunum í gærkvöldi.
Frá mótmælunum í gærkvöldi. mynd/beinar aðgerðir
Lögreglan slökkti í einnota grilli sem mótmælendur höfðu kveikt upp í bakvið heimili Bjarna Benediktssonar í gærkvöldi.

Svartsokka vefrit hefur sett myndband frá mótmælunum á Facebook-síðu sína en skipuleggjendur mótmælanna, Beinar aðgerðir, segja í tilkynningu til fjölmiðla að um meðmæli hafi verið að ræða. Hópurinn gagnrýnir aðgerðir lögreglunnar á staðnum enda hafi meðmælin verið friðsamleg og fjölskylduvæn samkoma.

„Lögreglan var þegar mætt á tveimur bílum við Bakkaflöt og einu vélhjóli Hafnarfjarðarmegin við hraunið þegar meðmælendur mættu og ekki var að sjá að aukinn fjöldi hafi verið kallaður út á meðan á meðmælunum stóð, líkt og fjölmiðlar gáfu í skyn með orðalagi sínu. Þá gátu meðmælendur ekki séð neina þörf fyrir viðveru lögreglu þar sem samkoman var lágstemmd og róleg allan tímann, líka eftir að lögregla ákvað að kalla einnota grill „opinn eld,“ banna grillið og haga afskiptum sínum eftir því,“ segir í tilkynningu Beinna aðgerða.

Um tíu manns voru á mótmælunum en til þeirra var boðað fyrir rúmri viku. Yfirskrift þeirra var „Grillum á kvöldin – sækjum þau heim.“ Hópurinn hvatti landsmenn til að mæta með einnota grill, mat, tjaldstóla, trommur og góða skapið. Landsmenn svöruðu þó ekki kalli skipuleggjenda mótmælanna þar sem fáir mættu.

Mótmælin voru harðlega gagnrýnd af fjölmörgum sem lýstu vanþóknun sinni á framtakinu með hjálp Facebook. Meðal þeirra sem gagnrýndu mótmælin voru Helgi Hrafn Gunnarsson þingmaður Pírata, Árni Páll Árnason formaður Samfylkingarinnar og Vilhjálmur Þorsteinsson fjárfestir og fyrrum gjaldkeri Samfylkingarinnar.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×