Enski boltinn

SkySports: Eiður Smári lánaður til Fulham

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Eiður Smári í leik með Stoke á móti Manchester United.
Eiður Smári í leik með Stoke á móti Manchester United. Mynd/AFP

Eiður Smári Guðjohnsen hefur verið lánaður til Fulham frá Stoke samkvæmt heimildum SkySports. Eiður Smári fór í læknisskoðun í kvöld og í framhaldinu var síðan fengið frá lánsamningnum sem gildir út þetta tímabil. BBC hefur síðan staðfest þessar fréttir.

Það var lítið að gerast í málum Eiðs Smára fram eftir degi og um tíma virtist stefna í það að hann yrði áfram hjá Stoke. Það breyttist hinsvegar snögglega í kvöld og hann mun því spila fyrir Mark Hughes út þetta tímabil.

Fulham verður þriðja Lundúnafélagið sem Eiður Smári spilar með á ferlinum en hann var í herbúðum Chelsea frá 2000 til 2006 og kláraði síðasta tímabil í láni hjá Tottenham.

Fulham er eins og er í fimmtánda sæti ensku úrvalsdeildarinnar aðeins þremur stigum frá fallsæti. Liðið tapaði 0-1 fyrir Liverpool í síðasta leik en hafði í þremur leikjum þar á undan unnið 2-0 sigur á Stoke, gert 1-1 jafntefli við Wigan og unnið 3-0 sigur á West Bromwich.

Næsti leikur Fulham er á móti Newcastle United á Craven Cottage á miðvikudagskvöldið.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×