Innlent

Skyndihjálparmaður ársins skilaði iPhone til að styrkja Rauða krossinn

Stefán Árni Pálsson skrifar
Hjálmar Karlsson er að vonum virkilega ánægður með Önnu Úrsúlu og allt Valsliðið.
Hjálmar Karlsson er að vonum virkilega ánægður með Önnu Úrsúlu og allt Valsliðið. VÍSIR
„Við á Hjálparsímanum 1717 erum afskaplega þakklát Önnu og Valsliðinu fyrir þessa óeigingjörnu ákvörðun,“ segir Hjálmar Karlsson, verkefnastjóri hjá Rauða krossinum, en Hjálmar hefur umsjón með Hjálparsíma Rauða krossins.

Handboltakonan Anna Úrsúlu Guðmundsdóttir, einn af skyndihjálparmönnum ársins, gaf á dögunum andvirði iPhone 6 til Rauða krossins. 

„Hún sýnir ótrúlegan karakter með þessu og ekki að furða að svona flottur og vel gerður einstaklingur hafi verið valinn Skyndihjálparmaður ársins ásamt öllu Valsliðinu,“ segir Hjálmar.

Á 1-1-2 daginn, þann 11. febrúar, útnefndi Rauði krossinn skyndihjálparmann ársins en fyrir valinu urðu handboltakonur úr meistaraflokki Vals, sem björguðu lífi Guðmundar Helga Magnússonar vorið 2014.

Sjá einnig: Björguðu sínum dyggasta stuðningsmanni og eru skyndihjálparmenn ársins

Anna Úrsúla Guðmundsdóttir, sem var að öðrum ólöstuðum fremst meðal jafningja í björgunaraðgerðunum, hafði samband við Rauða krossinn í síðustu viku. Hún hafði fengið verðlaun frá Símanum fyrir útnefninguna, en verðlaunin hljóðuðu upp á glænýjan iPhone 6 síma.

Anna ákvað að skila símanum og styrkja mannúðarstarf Rauða krossins um upphæðina sem fékkst fyrir símann en um var að ræða 117.900 krónur.

„Svona peningur hefur mikla þýðingu fyrir Hjálparsíma Rauða krossins en tvisvar á ári höldum við svokallaða átaksviku þar sem við leggjum sérstaklega áherslu á ákveðinn málaflokk og kynnum þá Hjálparsímann rækilega sem úrræði fyrir fólk. Næsta átaksvika verður núna í apríl og mun hún snúa að líðan barna og unglinga á einn eða annan hátt. Þessi peningur gerir okkur kleift að vera enn sýnilegri í þjóðfélaginu þegar á átaksviku stendur og ná til fleiri einstaklinga.“

Hjálmar segist vera gríðarlega þakklátur Önnu og öllu Valsliðinu en sigurvegarinn úr þessu öllu saman sé Guðmundur Helgi Magnússon sem Valsliðið bjargaði. 

Hjálparsími Rauða krossins er 1717.
Upphæðina er nú þegar búið að leggja inn á Rauða krossinn og rennur hún óskipt til Hjálparsímans 1717. Verður upphæðinni varið til að betrumbæta starfsemi 1717, þá sérstaklega netspjallið 1717.is, sem verður æ algengari samskiptamáti og í öllu falli jafn mikilvægur og gamla góða símalínan.

Hjálmar segir að Hjálparsíminn sé gríðarlega mikið nýttur en á síðastliðnu ári bárust okkur rúmlega 14 þúsund símtöl.

„Að hafa samband við Hjálparsímann er alltaf rökrétt fyrsta skref í átt að lausn á vandanum og veitum við sálrænan stuðning, sálræna skyndihjálp ásamt því að gefa upplýsingar um þau úrræði sem eru í boði í þjóðfélaginu hverju sinni. Þá tókum við nýlega í notkun netspjall á slóðinni www.1717.is  sem hefur reynst afskaplega vel og vex með hverjum mánuðinum. Hjálparsíminn er algjörlega nafnlaus sími þar sem fullum trúnaði og skilningi er heitið og ókeypis er að hringja í hann úr öllum símafélögum. Allir sjálfboðaliðar Hjálparsímans hafa gengið í gegnum viðamikil námskeið og þjálfun sem sinnt er af fagaðilum.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×