Viðskipti innlent

Skuldir þjóðarbúsins lækkuðu um 266 milljarða á öðrum fjórðungi

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
Í heild lækkaði gengi krónunnar um 0,73% miðað við gengisskráningarvog.
Í heild lækkaði gengi krónunnar um 0,73% miðað við gengisskráningarvog. vísir/pjetur
Viðskiptajöfnuður mældist hagstæður um 21,3 milljarða króna á öðrum ársfjórðungi samanborið við 6,3 milljarða á fyrsta ársfjórðungi. Vöruskiptajöfnuður var óhagstæður og nam 12,8 milljörðum. Þjónustujöfnuður mældist hagstæður um 54,7 milljarða króna. Þetta kemur fram í tölum frá Seðlabanka Íslands.

Erlendar eignir þjóðarbúsins námu 5.535 milljörðum króna í lok ársfjórðungsins en skuldir 13.200 milljarðar. Staða við útlönd er því neikvæð um 7.665 milljarða króna. Skuldir lækkuðu um 266 milljarða milli ársfjórðunga. Að frátöldum innlánsstofnunum í slitameðferð námu eignir þjóðarbúsins 3.966 milljörðum og skuldir 3.852 milljörðum. Hrein staða, metin á þann hátt, er því jákvæð um 114 milljarða.

Á tímabilinu skiluðu gengis- og verðbreytingar jákvæðum áhrifum á erlenda stöðu þjóðarbúsins sem nam 156 milljörðum króna. Af þeim sökum lækkuðu erlendar eignir um 73 milljarða króna og erlendar skuldir um 229 milljarða króna.

Gengi krónunnar styrktist um rúm fjögur prósent gagnvart dollara en veiktist um tvö prósent gagnvart pundi. Í heild lækkaði gengi gjaldmiðilsins um 0,73% miðað við gengisskráningarvog.

Vakin er athygli á því að útreikningi viðskiptajafnaðar án áhrifa innlánsstofnana í slitameðferð hefur verið breytt. Viðskiptajöfnuður þannig mældur var hagstæður um 26,5 ma.kr. samanborið við 13,5 ma.kr. fjórðunginn á undan. Sem fyrr er leiðrétt fyrir tekjum og gjöldum þeirra í frumþáttatekjum sem námu annarsvegar 4,8 ma.kr. og hinsvegar 11,3 ma.kr. á öðrum ársfjórðungi. Neikvæð áhrif innlánsstofnana í slitameðferð á frumþáttatekjur nema 6,6 ma.kr.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×