Innlent

Skráning foreldra er gömul kynjapólitík

Sunna Valgerðardóttir skrifar
Guðmundur Steingrímsson segir núverandi skráningarkerfi skekkja mjög þá fjölskyldumynd sem sé við lýði í dag og kallar það arf frá gömlum tíma. 
Fréttablaðið/GVA
Guðmundur Steingrímsson segir núverandi skráningarkerfi skekkja mjög þá fjölskyldumynd sem sé við lýði í dag og kallar það arf frá gömlum tíma. Fréttablaðið/GVA
„Kerfið gerir ráð fyrir því að eftir skilnað þá fari barnið bara til mömmu sinnar og pabbinn fari bara og kaupi sér sportbíl, eigi ekki barn lengur og borgi bara meðlag samkvæmt opinberum gögnum. Það eru skilaboðin,“ segir Guðmundur Steingrímsson alþingismaður sem hefur lagt fram tvær þingsályktunartillögur sem gera ráð fyrir breytingum á lögum er varða búsetu skilnaðarbarna.

Önnur tillagan hefur fengið jákvæða umsögn úr velferðarnefnd og segist Guðmundur ætla að beita sér sérstaklega fyrir því að hún fari í gegnum núverandi þing. Í henni segir að innanríkisráðherra skuli stofna starfshóp sem myndi semja frumvarp um annað hvort tvöfalt lögheimili barna eða búa til nýtt lagalegt hugtak um jafna búsetu. Hin tillagan fjallar um breytingar á skráningarkerfi hins opinbera þannig að báðir umgengnisforeldrar verði skráðir sem foreldrar.

„Það skekkir mjög alla pólitík gagnvart fjölskyldum og börnum að það eru bara lögheimilisforeldrar sem eru skráðir foreldrar barna en ekki umgengnisforeldrar,“ segir Guðmundur. „Stórir hópar fólks sem hafa börnin sín lungann úr árinu eru bara ekki skráðir foreldrar þeirra og njóta þá ekki stuðnings sem slíkir. Þetta er arfur frá gömlum tíma, gamaldags kynjapólitík.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×