Innlent

Skorið niður um 12% í þróunaraðstoð til barna

Hanna Rún Sverrisdóttir skrifar
„Það er umhugsunarefni að alltaf þegar að kreppir sé skorið niður í framlagi til þróunarsamvinnu. Þannig var það líka á fyrri hluta síðasta kjörtímabils,“ segir Stefán Ingi Stefánsson, framkvæmdastjóri UNICEF, um tillögu samkvæmt nefndaráliti um frumvarp til fjárlaga.

Meðal þess sem lagt er til í álitinu er að dregið verði úr styrkjum til þróunaraðstoðar til UNICEF, Alþjóðabarnahjálparstofnunarinnar um tæpar 22 milljónir króna. Að sögn Stefáns Inga hafa þessir peningar farið í þróunar- og neyðaraðstoð við börn og peningarnir eru nýttir þar sem þörfin er mest hverju sinni. Um er að ræða nokkuð mikinn niðurskurð ef af verður eða um 12 prósent.

UNICEF greinir á hverjum tíma hvar neyðin er mest og undanfarið hafa peningarnir aðallega farið í heilsugæsluverkefni sunnan við Sahara í Afríku. Peningarnir hafa aldrei verið eyrnamerktir og Stefán Ingi segir að það sé eitt af því sem gerir UNICEF svo sterkt, stofnunin aðstoðar þar sem þörfin er mest hverju sinni.

„Þetta er flatur niðurskurður á meðan að í áætlunum ríkisins eru fjórar stofnanir í ákveðnum forgangi. Það eru stofnanirnar UNICEF, UN Women, Alþjóðabankinn og Háskólar Sameinuðu þjóðanna. Með niðurskurði sem þessum er þeim stofnunum sem eru í forgangi ekkert hlíft,“ segir Stefán Ingi.

Verkefni sem þessi verða alltaf fyrir barðinu á miklum niðurskurði. „Það er alveg sama hversu mikinn stuðning við fáum, þegar til kastanna kemur virðist þetta enda oft svona,“ segir Stefán Ingi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×