Innlent

Skorað á Sigmund Davíð að gerast grænmetisæta

Samúel Karl Ólason skrifar
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson hefur áður prófað íslenska kúrinn.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson hefur áður prófað íslenska kúrinn.
Skorað hefur verið á Sigmund Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra að gerast grænmetisæta í þrjá mánuði. Á Facebook-síðu forsætisráðherrans hefur Sara Kristjánsdóttir birt áskorunina og birtir einnig viðtal við Ed Smith, borgarstjóra í Marshall í Texas –fylki í Bandaríkjunum. Hann gerðist grænmetisæta og telur það hafa hjálpað sér og bætt heilsuna til muna.

Ed Smith segist hafa misst í kringum tuttugu kíló við að byrja að breyta um matarvenjur. Hann gerðist, það sem kallast á ensku, vegan. Það þýðir að hann borðar engar dýraafurðir. Hann hefur skorað á fleiri bæjarbúa að taka upp þennan lífsstíl. Nú eru sjö veitingastaðir í borginni sem bjóða upp á svokallað Vegan-fæði.

Jafnframt því að skora á Sigmund Davíð að prófa slíka fæðu í þrjá mánuði, býðst Sara til þess að hjálpa honum að velja grænmetisfæði. „Það eru til góðar íslenskar kartöflur og svo er þetta flotta íslenska bygg líka gott,“ segir hún í athugasemd við færsluna sína á Facebook-síðu Sigmundar. Þar er hún líklega að vísa til þess að Sigmundur ákvað fyrir um þremur árum síðan að fara á kúr sem hann kallaði íslenska kúrinn. Á heimasíðu sinni sagði Sigmundur þetta um kúrinn:

„Jæja, þá er komið að því. Á morgun byrja ég fyrir alvöru í megrunarkúr sem ég hlýt að kalla íslenska kúrinn því hann felst í því að borða bara íslenskan mat. Íslenski kúrinn byggist á því að:

a) Ég hitti meltingarlækni sem sagði mér að íslenskur matur væri sá hollasti í heimi.

b) Aðeins helmingur þeirrar fæðu sem neytt er á Íslandi er framleidd hér. Þ.a. ef maður borðar bara það íslenska borðar maður helmingi minna. Með því að auka svo neyslu á íslenska matnum um 50% endar maður í 75% af fyrri neyslu.

Sjáum hvað setur. Til að veita mér aðald og í þágu vísinda ætla ég að birta þyngdarmælingu á mánudögum næsta mánuðinn.

Byrjunarstaða: 108 kg.“

Þegar fréttin var skrifuð höfðu tuttugu og sjö manns smellt á „like-takkann“ við áskorun Söru og hafði ein kona bent á viðtal við Bill Clinton sem ákvað einnig að breyta sínum lífsstíl og taka upp svokallaðan Vegan-lífstíl.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×