Innlent

Skólameistari VMA: Við erum ekki í vinsældakeppni

Erla Hlynsdóttir skrifar
Hjalti Jón Sveinsson segir samanburðinn ósanngjarnan en hefur annars ekki teljandi áhyggjur
Hjalti Jón Sveinsson segir samanburðinn ósanngjarnan en hefur annars ekki teljandi áhyggjur
„Við erum ekki í vinsældakeppni. Við útskrifum hæft og gott fólk," segir Hjalti Jón Sveinsson, skólameistari Verkmenntaskólans á Akureyri. Samkvæmt úttekt stærðfræðings á gæðum 32 framhaldsskóla á Íslandi er VMA í 22. sæti.

Verkmenntaskóli Austurlands er síðan á botni listans.

Pawel Bartoszek, stærðfræðingur og stjórnlagaráðsmaður, vann úttektina fyrir Frjálsa verslun.

Í nýjasta tölublaðinu kemur fram að skólarnir séu metnir samkvæmt 17 gæðavísum, meðal annars menntun kennara, árangri í innlendum og alþjóðlegum keppnum, svo sem Gettu Betur.

Eins og komið hefur fram trónir Menntaskólinn í Reykjavík á toppi listans, með 925 stig, og Menntaskólinn í Hamrahlíð er í öðru sæti, með 660 stig.

VMA fær hins vegar aðeins 146 stig.

Örvænta ekki

Hjalti Jón telur þessar niðurstöður ekki ástæðu fyrir starfsfólk og nemendur við VMA til að örvænta. „Ég tek þetta ekki alvarlega," segir hann. Hjalti Jón bendir á að skólinn taki lítið þátt í alþjóðlegum keppnum. Hins vegar sé í skólanum breiður hópur ánægðra nemenda og strangt eftirlit með gæðum skólastarfs.

Eyþór Ingi Gunnlaugsson tryggði VMA sigur í Söngkeppni framhaldsskólanna árið 2007
Hann segir hægt að meta skólastarf út frá mörgum ólíkum forsendum og ekki sanngjarnt að draga skóla í dilka á þennan hátt. „Ég held að svona lagað geti hreinlega verið hættulegt," segir Hjalti Jón og á þar við að með því að flokka skóla á þennan hátt fái nemendur jafnvel ranga mynd af skólunum. Þá tekur hann dæmi af því að VMA er með sérstaka deild þar sem lögð er áhersla á þjónustu við fatlaða nemendur, en ekkert tillit sé tekið til viðlíka þátta í matinu. Hjalti Jón vekur einnig athygli á góðu gengi skólans í Söngkeppni framhaldsskólanna.

Ráðherra setur fyrirvara

Katrín Jakobsdóttir, menntamálaráðherra, segir í samtali við Frjálsa verslun að hún setji ákveðna fyrirvara við niðurstöðu úttektarinnar. Þar bendir hún meðal annars á ójöfn tækifæri milli skóla á landsbyggðinni og í höfuðborginni til að taka þátt í mörgum þeim keppnum sem lagðar eru til grundvallar matinu. Þá bendir hún á að margir þeirra skóla sem eru ofarlega á listanum, svo sem MR og MH, eru í þeirri aðstöðu að geta valið inn nemendur.

Í Frjálsri verslun er einnig rætt við stjórnendur þeirra skóla sem efstir eru í úttektinni. Þeir eru sammála um að niðurstöðum sem þessum þurfi að taka með fyrirfara.

Leiðrétting:

Í fréttinni stóð upphaflega að Verkmenntaskólinn á Akureyri hefði komið verst út úr gæðakönnuninni. Það er ekki rétt, eins og lesa má í endurbættri útgáfu hér að ofan, heldur er það Verkmenntaskóli Austurlands.

Beðist er velvirðingar á þessum mistökum.


Tengdar fréttir

MR besti framhaldsskóli landsins

Menntaskólinn í Reykjavík er besti framhaldsskóli landsins ef marka má úttekt stærðfræðings sem byggði á sautján gæðavísum. Úttektin er sú fyrsta sinnar tegundar á Íslandi.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×