Erlent

Skógrækt mun þýðingarmeiri en áður var talið

Vigdís Finnbogadóttir, fyrrverandi forseti Íslands, gróðursetur í Vinaskógi
Vigdís Finnbogadóttir, fyrrverandi forseti Íslands, gróðursetur í Vinaskógi Mynd úr safni
Skógrækt og verndun skóga eru mun þýðingarmeiri í baráttunni gegn loftlagsbreytingum en áður var talið. Þetta sýnir ný rannsókn sem tímaritið Nature Geoscience hefur birt en þar kemur fram að eyðing skóga hefur mun verri afleiðingar í för með sér en til þessa hefur verið sýnt fram á.

Ef maðurinn hætti að eyða skógum í dag myndu núverandi skógar og það skóglendi sem við bættist fjarlægja helminginn af losun vegna jarðefnaeldsneytis, segir einn greinarhöfunda, ástralski vísindamaðurinn Josep Canadell við CSIRO-rannsóknarstofnunina í Canberra, en hann lýsir niðurstöðunum sem bæði ótrúlegum og óvæntum. Sérstaklega hafi komið á óvart hve mikinn koltvísýring (CO2) svæði náðu að binda þar sem skógur óx á ný eftir að hann hafði áður verið högginn niður eða brenndur.

Til þessa hefur verið áætlað að 12 til 20 prósent af losun gróðurhúsalofttegunda mætti rekja til eyðingar skóga. Þessi tala er hins vegar mun hærri, eða um 26 prósent, samkvæmt þessari nýju rannsókn, sem byggð er á gögnum sem alþjóðlegur hópur loftlagssérfræðinga safnaði á árunum 1990-2007, meðal annars með aðstoð gervihnatta. Skógar heimsins virðast hins vegar enn ná að sjúga til sín allt að þriðungi útblásturs frá kolum, gasi og olíu.

Canadell segir rannsóknina sýna fram á gríðarleg áhrif skóga á loftslagsþróun. Skógurinn virki í raun eins og svampur í að sjúga upp koltvísýring og hann sé enn mikilvægari en áður var talið í baráttunni við að takmarka loftlagsbreytingar. Þetta þýði að verndun skóga og endurheimt skóglendis muni gegna mun stærra hlutverki og hafa meira vægi í alþjóðlegum viðskiptum með losunarkvóta. Verðmætið hlaupi á mörghundruð milljörðum króna á evrópskum markaði fyrir losunarkvóta.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×