Innlent

Skjálftavirkni mögulega merki um eldgos fyrir ofan Hafnarfjörð

Höskuldur Kári Schram skrifar
Frá Heiðmörk.
Frá Heiðmörk.
Haraldur Sigurðsson, eldfjallafræðingur, telur að aukin skjálftavirkni og landris í Krýsuvík geti hugsanlega verið merki um að eldgos sé vændum fyrir ofan Hafnarfjörð, í Heiðmörk eða í grennd við Elliðavatn.

Vísindamenn hafa fylgst með svæðinu frá árinu 2007 en mælingar benda til þess að land hafi risið og nokkra sentimetra.

Haraldur Sigurðsson, eldfjallafræðingur, segir að Krýsuvík flokkist sem megineldstöð.

„Þetta er dálítið stórt eldfjall og miðjan er Krýsuvík," segir Haraldur. „Svona stóru eldfjalli fylgir sprungukerfi, gjár og sprungur sem liggja frá Selártanga við Krýsuvíkurbjarg og alveg norðaustur í Heiðmörki. Rétt fyrir sunnan Hafnarfjörði og svo inn í Heiðmörk og það er sprungukerfi."

„Það gaus síðast á þessu sprungukerfi árið 1151 og þá rann Ögmungarhraun í Krísuvík og þá kom líka Kapelluhraun þar sem álverksmiðjan stendur og Gvendarselshraun er þar á milli."

Ekki liggur fyrir hvað veldur því að land er að rísa en Haraldur telur að það geti bent til þess að hraunkvika sé á hreyfingu inni í jarðskorpunni.

„Það er mögulegt að þarna sé kvika að safnast fyrir og það er ekki vitað hvort að sú kvika verður bara róleg eða hvort hún myndar kvikuhlaup og brýst inn í sprungukerfið til norðausturs eða suðvesturs, eða hvort hún kemur upp á yfirborðið. Svo það er eitthvað að gerast þarna undir Krísuvík sem þurfum að fylgjast með."

Sprungugos í norðurhluta Krýsvíkurkerfisns getur hugsanleg komið upp í Heiðmörk eða í grennd við Elliðavatn. En eru líkur á því að það fari að gjósa þarna á næstu árum?

„Það er enginn klukka í gangi, þannig er það bara með eldstöðvar," segir Haraldur. „Þetta er ekki vekjaraklukka. Þannig að það er ekki hægt að dæma um líkur út frá síðustu gosum. Það er hægt að fylgjast með breytingum sem eiga sér stað en það er vel mögulegt að segja hvort Krýsuvík eigi eftir að gjósa, hvort að það væri gos eins og árið 1151. Þá var sprungugos og þessi þrjú hraun mynduðust. Þar sem ung hraun eru eins og Kapelluhraun er það því miður svo að ný hraun koma ofan á þau, það þarf að hafa það í hug þegar menn eru ráðast í mikla þróun á byggð á svæði eins og er þarna fyrir sunnan Hafnarfjörð."



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×