Innlent

Skíthræddir í Feneyjum: Íslendingar ósiðmenntaðir og móðgandi

Kolbeinn Óttarsson Proppé skrifar
Dreifbréfið. Sverrir Agnarsson er staddur úti.
Dreifbréfið. Sverrir Agnarsson er staddur úti. vísir
Aðstandendur íslenska verksins á Tvíæringnum í Feneyjum óttast mótmæli við íslenska skálann í dag. Heimamenn hafa verið hvattir til að sniðganga Ísland og íslenskar vörur. Kallað er eftir því að íslensk stjórnvöld svari fyrir sig.

„Menn eru skíthræddir við mótmæli hér við bænir á morgun [í dag]. Margir vilja draga sig út úr þessu og ekki mæta,“ segir Sverrir Agnarsson, formaður Félags múslima á Íslandi, sem staddur er í Feneyjum.

Auglýsingaspjöldum þar sem hvatt er til þess að sniðganga Ísland og íslenskar vörur hefur verið dreift um borgina. Þar er Ísland sagt hafa „lítilsvirt og afhelgað tákn kristni okkar, menningu og sögulegt minni með því að setja upp mosku í kirkjunni Santa Maria della Misericordia.“

Sverrir segir grundvallarmisskilnings gæta varðandi húsnæðið sem hýsir íslenska skálann. Þar hafi verið kirkja en hún hafi verið afhelguð árið 1973 og meðal annars notuð sem vöruskemma. Mikilvægt sé að íslensk stjórnvöld bregðist við gagnrýninni, en Sverrir segir íslenska konsúlinn hafa tekið undir þessi röngu sjónarmið.

Sverrir segir að verið sé að ráðast á Ísland og íslenska hagsmuni á fölskum forsendum og það verði að leiðrétta. Í dreifimiðanum segir meðal annars:

„Svörum lítillækandi, móðgandi og ögrandi gjörðum þjóðar sem virðist enn vera ósiðmenntuð með því að sniðganga vörur þeirra og tilboð varðandi ferðamennsku frá landi þeirra ÍSLANDI! Hættum að kaupa vörur made in Iceland eða eins og í þeirra tilviki fisk og afurðir úr Norðurhafinu.“

Forsvarsmaður mótmælanna er sagður vera Luigi Coró, sem hvetur til þess að andmæli séu send á ræðismannsskrifstofu Íslands í Mílanó.

Sverrir segir að mótmælin séu nú farin að snúast gegn Íslandi og íslenska fánanum, með blekkingum. Við því þurfi að bregðast.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×