Lífið

Skipulag í óreiðunni

Vera Einarsdóttir skrifar
Arngunnur rekur tvö heimili. Eitt í útjaðri Reykjavíkur og annað í San Francisco.
Arngunnur rekur tvö heimili. Eitt í útjaðri Reykjavíkur og annað í San Francisco. MYND/STEFÁN
Myndlistarkonan Arngunnur Ýr Gylfadóttir er einn fremsti listmálari landsins og hefur getið sér gott orð bæði hér heima og erlendis. Hún rekur tvö heimili; annað í San Francisco og hitt í útjaðri Reykjavíkur og er auk þess að skjóta rótum við Heklu og á Havaí. Hún hefur starfað sem leiðsögumaður á Íslandi í 25 ár og þrátt fyrir að hafa verið með annan fótinn í Kaliorníu stóran hluta ævinnar er íslenskt landslag það sem helst ratar á strigann.

„Ég er svo mikill Íslendingur í mér og íslenskt landslag veitir mér ótæmandi innblástur,“ segir Arngunnur sem hefur fengist við myndlist í rúm 30 ár og selt verk sín vítt og breitt. Hún er með allt landið undir og segist alltaf eiga erfitt með að nefna uppáhaldsstað. „Ég elska Jökulsárgljúfur, Hljóðakletta og hráu náttúruna á Mývatni svo eitthvað sé nefnt. Þá eru mörg mótíf í myndunum mínum frá Aust- og Vestfjörðum.“

Arngunnur hefur sett upp sýningar í helstu söfnum landsins og í mörgum af helstu stórborgum heims. Má þar nefna New York, París og Berlín. Nú stendur yfir sýningin Dramalandið í Hannesarholti. MYND/STEFÁN
Að sögn Arngunnar er gaman að sjá myndirnar eignast sjálfstætt líf.

„Ég er ekkert að velta því fyrir mér hvar þær koma til með að enda á meðan ég er að. Ég mála bara það sem ég þarf að mála þangað til ég loksins sleppi af þeim hendinni. Það er hins vegar skemmtilegt að vita af Kirkjufelli á skrifstofu Microsoft í New York og Eyjafjallajökli í Santa Fe í Nýju-Mexíkó svo dæmi séu nefnd og gaman að eiga þátt í því að koma myndum af Íslandi um víðan völl.“

Arngunnur er alin upp í mikilli tónlistarfjölskyldu. Systir hennar Bryndís Halla Gylfadóttir er sellóleikari og sjálf lærði Arngunnur á flautu.

„Það var verið að æfa sig í öllum herbergjum heima hjá mér í æsku.“

Arngunnur stundaði einnig nám í Myndlista- og handíðaskóla Íslands og upp úr tvítugu þurfti hún að velja á milli flautunnar og myndlistarinnar.

„Myndlistin togaði meira í mig. Kannski var það vegna þess að í myndlistinni er maður algerlega frjáls en í tónlistinni spilar maður yfirleitt verk eftir aðra. Tónlist skiptir mig þó miklu máli í sköpuninni og ég hlusta mikið á alls kyns tónlist við vinnuna. Ég er einna hrifnust af tónlist sjötta og sjöunda áratugarins en hef líka gert tilraunir með eitthvað allt annað eins og til dæmis death metal til að sjá hvort það hafi áhrif á sköpunina.“

Larry Andrews, eiginmaður Arngunnar, og Dyami, sonur þeirra, í Korpudal í Önundarfirði.
Arngunnur fór í framhaldsnám til Kaliforníu og lauk BA-gráðu í málaralist frá San Francisco Art Institute og meistaragráðu í málaralist frá Mills-háskólanum í Oak­land. Hún stundaði sömuleiðis nám við Gerrit Rietveld akademíuna í Amsterdam í Hollandi. 

Í Kaliforníu kynntist hún manninum sínum Larry Andrews, sem er prófessor í kvikmyndagerð við Kaliforníuháskóla, og eiga þau tvö börn; Daríu Sól og Dyami Rafn.

Alltaf að fljúga heim


„Þar sem ég ber svo sterkar taugar til Íslands varð það að samkomulagi hjá okkur Larry að við myndum koma okkur upp heimili á báðum stöðum. Við eigum hús í útjaðri höfuðborgarsvæðisins og í Montclair á San Francisco-svæðinu en bæði húsin höfum við byggt frá grunni. Við höfum svo dvalið á Íslandi og í Kaliforníu til skiptis og börnin gengið í skóla á báðum stöðum. Eitt sinn sagði Dyami einmitt við mig á flugvellinum: Mamma, það er í raun alveg sama í hvora áttina við erum að fara. Við erum alltaf að fljúga heim,“ segir Arngunnur og hlær.

Hún segir börnin hafa aðlagast þessu lífi vel. „Það hefur örugglega hjálpað til að við höfum alltaf búið á sama stað og í sama húsi í Kaliforníu. Þetta hljómar kannski kaótískt en það er skipulag í óreiðunni,“ segir Arngunnur. 



Arngunnur og dóttir hennar Daría Sól í Róm
Listræn börn

Daría Sól sem er 23 ára var að klára nám við UC Berkeley í Rhetoric, eða mælskulist, og ætlar að öllum líkindum í framhaldsnám í Museum studies, eða safnafræði, við Gold­smiths-háskólann í London. Diamy Rafn sem er 19 ára er við nám í verkfræði og myndlist og leikur auk þess á selló og rafmagnsgítar. Það er því ljóst að börnin hafa bæði erft listagen móður sinnar. 

„Þau hafa líka bæði tekið virkan þátt í að byggja húsin okkar og Dyami var til dæmis ekki nema átta ára þegar hann lagði rafmagnið með pabba sínum í húsið okkar í San Francisco. Þaðan kemur kannski verkfræði­áhuginn,“ segir Arngunnur.

Á jarðskjálftasvæðum

Arngunnur segir brjálæðið halda áfram og eru þau hjónin að leggja grunn að bústað undir Heklurótum og að öðrum á Havaí.

„Fólk hristir hausinn því við virðumst sogast að jarðskjálftasvæðum en það er eitthvað við þennan hreyfanleika í náttúrunni, sem við sjáum ekki endilega með berum augum, sem heillar mig og veitir mér innblástur. Eins fáum við útrás fyrir sköpunarkraftinn við að byggja svona frá grunni.“

Íslenskt landslag veitir Arngunni ótæmandi innblástur.Vísir/Stefán
Arngunnur hefur að sögn brennandi jarðfræðiáhuga sem nýtist henni ekki síður í leiðsögumannsstarfinu en í myndlistinni. 

En hvernig kom það til að þú gerðist leiðsögumaður? 

„Það var nú vinkona mín sem lagði það til við mig en þannig fæ ég tækifæri til að ferðast um landið og sækja innblástur.“

Aðspurð segist Arngunnur ferðaþjónustuna vissulega hafa tekið stakkaskiptum síðastliðin ár með auknum fjölda ferðamanna.

„Ég vinn aðallega fyrir Iceland Travel og Iceland Encounter og hef mest tekið að mér hópa sem koma af einskærum áhuga sínum á landi og þjóð. Þetta fólk er að sækjast eftir fróðleik og er jafnframt flest meðvitað um að vernda landið en þó mitt fólk sé ekki endilega að fara út fyrir gönguslóða þá eru augljós vandamál sem steðja að og verður til dæmis að varast átroðning á sumum stöðum og laga klósettmál,“ segir Arngunnur. 

Eftir öll ferðalögin um landið hefur hún auk þess orðið vör við umtalsverðar breytingar á landinu.

„Þegar maður þekkir landið sitt svona vel verða áhrif loftslagsbreytinga ljósari og ég sé víða mikinn mun. Jöklarnir hafa hopað og sums staðar sjást heilu fjallshlíðarnar sem sáust ekki áður. Þetta reyni ég að fanga í myndlistinni. Bæði uppbygginguna og eyðinguna sem verður í náttúrunni.“

Boltinn rúllar

Arngunnur hefur sett upp sýningar í helstu söfnum landsins og í mörgum af helstu stórborgum heims.

Arngunnur hefur starfað sem leiðsögumaður á Íslandi í 25 ár og sækir innblástur í verk sín á ferðalögum um landið.
„Ég hef verið mjög lánsöm. Þegar ég var við nám kom sýningarstjóri að skoða verk nemenda og bauð mér að setja upp sýningu. Síðan hefur boltinn bara rúllað.“ Aðspurð segist Arngunnur ekki mála mörg verk á ári. „Það þýðir ekki að ég sé ekki mikið á vinnustofunni eða leggi ekki hart að mér. Ég er bara svo lengi með hvert verk og þau eru í mörghundruð lögum.“

Verk Arngunnar hafa eins og gengur breyst í áranna rás en hún gaf út listaverkabók sem spannar ferilinn undir eigin nafni árið 2012. Í fyrrahaust gaf hún svo út bókina Vitni sem var unnin í samstarfi við rithöfundinn Elísabetu Kristínu Jökulsdóttur og hönnuðinn Brynju Baldursdóttur. 

„Það er eins með bækurnar og málverkin að þær eignast eigið líf þegar ég loks sleppi af þeim hendinni. Þær komust í hendur Ragnheiðar Jónsdóttur, forstöðumanns Hannesarholts, sem hreifst af verkunum og bauð hún mér í kjölfarið að sýna þar. Ég hreifst ekki síður af húsinu og þeirri menningarstarfsemi sem þar fer fram og opnaði sýninguna Dramalandið fyrr í sumar.“

Á sýningunni eru verk eftir Arngunni sem hún hefur málað síðustu tvö ár. Sýningin er á aðal og neðstu hæð hússins. Hún verður opnuð aftur eftir sumarfrí 2. ágúst og stendur til 18. ágúst. Í haust tekur svo við sýning í San Francisco. 

Hér er Arngunnur að hefja framkvæmdir við Heklurætur þar sem hún hyggst reisa sumarhús og vinnustofu.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×