Erlent

Skiptar skoðanir á framtaki Íslendinga

Guðsteinn Bjarnason skrifar
Raphael Schutz, sendiherra Ísraels, segir Íslendinga hafa sýnt ábyrgðarleysi.
Raphael Schutz, sendiherra Ísraels, segir Íslendinga hafa sýnt ábyrgðarleysi. Fréttablaðið/Pjetur
„Það kemur varla á óvart að ég telji báðar þessar ákvarðanir hafa verið mjög neikvæðar,“ segir Raphael Schutz, sendiherra Ísraels, gagnvart Íslandi. „En ég er ánægður með að ákvörðun Reykjavíkurborgar hafi verið afturkölluð.“

Hann á þarna við ályktun á landsfundi Vinstri grænna um helgina um að slíta eigi stjórnmálasambandi við Ísrael og ákvörðun borgarstjórnar Reykjavíkur, sem fljótlega var afturkölluð, um að setja kaupbann á vörur frá Ísrael.

Hann er í stuttri heimsókn hér á landi og átti á mánudag fundi með bæði Degi B. Eggertssyni borgarstjóra og Katrínu Jakobsdóttur, formanni Vinstri grænna, þar sem hann segist hafa rætt ítarlega þessar tvær ákvarðanir auk þess sem hann hafi upplýst þau um afstöðu Ísraelsstjórnar, bæði gagnvart Mið-Austurlöndum almennt og gagnvart Palestínu sérstaklega.

„Ég tel almennt séð að fólk eigi að sýna af sér ábyrgð,“ segir hann, „og þá meina ég að fólk eigi að þekkja staðreyndirnar og gæta ábyrgðar í orðavali. Því miður tel ég að í báðum þessum tilvikum hafi fólk sýnt af sér gróft ábyrgðarleysi í þessum tveimur ákvörðunum. Þetta ábyrgðar­leysi vekur auðvitað áhyggjur og vonbrigði.“

„Við skulum hafa það skýrt að ég tel að vissulega geti gagnrýni á Ísrael átt rétt á sér,“ segir Schutz. „Það sem ég get ekki sætt mig við er að farið sé yfir rauðu strikin, þegar notast er við lygar eins og þjóðarmorð, aðskilnaðarstefnu, þjóðernishreinsanir og nýlenduríki. Öllu þessu ætti að útrýma úr orðabók umræðunnar ef við viljum taka af einhverri alvöru þátt í uppbyggilegum samræðum. Annars teljum við þetta vera hatursherferð gegn Ísrael.“

Mufeed Shami, sendiherra Palestínu, segir Íslendinga hafa sýnt hugrekki. Fréttablaðið/Ernir
Kann að meta hugrekki Íslendinga

„Þetta er auðvitað ákvörðun sem er tekin á Íslandi af höfuðborg landsins. Við skiptum okkur ekkert af innanlandsstjórnmálum hér, jafnvel þegar þau snerta okkur beint,“ segir Mufaz Shami, sendiherra Palestínu gagnvart Íslandi. Hann var staddur hér á landi í síðustu viku og var þá spurður út í hið endasleppa kaupbann Reykjavíkurborgar gagnvart Ísrael.

„Hins vegar hafa öll samskipti okkar við Ísland skipt okkur miklu máli. Við kunnum virkilega að meta að Ísland hafi orðið fyrst Norðurlandanna til þess að viðurkenna Palestínu sem fullgilt ríki með landamærin frá 4. júní 1967.“

Shami fagnar því sérstaklega að íslenska þjóðin sé mjög vel upplýst um alþjóðamál: „Hún horfir ekki á aðra hliðina heldur á báðar hliðarnar. Hún þekkir ísraelsku útgáfuna af þessari sögu og hún þekkir palestínsku útgáfuna, og er fær um að leggja sitt eigið mat á þetta.“

Hann segir Ísland hafa sýnt hugrekki með því að taka þetta skref þótt önnur lönd hafi verið hrædd við það: „Ísland reið á vaðið og Svíþjóð fylgdi í kjölfarið. Svo breyttu hin Norðurlöndin stöðu sendifulltrúa Palestínu í stöðu sendiherra með öll þau réttindi sem slíkri stöðu fylgja, sömu réttindi og fylgja sendiráðum annarra ríkja,“ segir Shami. 

„Þegar Ísland tók ákvörðun að grípa inn í og líta á átökin milli Ísraels og Palestínu þá hafði Ísland engra pólitískra eða efnahagslegra hagsmuna að gæta gagnvart hvorki Palestínu né Ísrael. En þetta skref er í raun og veru skref í áttina að friði og að tveggja ríkja lausninni.  Þannig að við erum eindregið þeirrar skoðunar að ef friður kemst á þá gerist það vegna Norðurlandanna. Þau komu Palestínu aftur á kortið.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×