Innlent

Skattur á mat verði hækkaður í 25,5%

Gylfi Magnússon efnahags- og viðskiptaráðherra.
Gylfi Magnússon efnahags- og viðskiptaráðherra.
Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn leggur til að virðisaukaskattur á matvæli verði hækkaður úr sjö prósentum í 25,5 prósent. Einnig er lagt til að aðrar vörur sem nú er lagður sjö prósenta virðisaukaskattur á verði hækkaður og neðra þrep virðisaukaskattsins þannig lagt niður. Þetta er meðal tillagna sjóðsins um það hvernig íslensk stjórnvöld geti aukið tekjur sínar.

Gylfi Magnússon efnahags- og viðskiptaráðherra segir enga ákvörðun hafa verið tekna í ríkisstjórn um hvort farið verði að þessari tillögu sjóðsins. „Þetta eru bara þeirra tillögur og hugmyndir og ég vil svo sem ekkert segja til um hvort það sé líklegt eða ólíklegt að eitthvað þessu líkt verði gert,“ segir Gylfi. Hann vísaði að öðru leyti á Steingrím J. Sigfússon fjármálaráðherra, en ekki náðist í hann.

„Ég er alfarið á móti þessu,“ segir Jóhannes Gunnarsson formaður Neytendasamtakanna. „Það er allt of mikil árás á lífskjörin, þau þola það ekki. Ég ætla rétt að vona að það verði ekki farið að þessum tillögum.“

Íslensk stjórnvöld báðu sérfræðinga AGS um úttekt á skattkerfinu og tillögur um hvernig auka mætti tekjur ríkisins um eitt til tvö prósent af vergri landsframleiðslu á næstu árum. Sérfræðingarnir telja skattkerfið í grundvallaratriðum gott. Meðal annarra tillagna sem settar eru fram er að fjármagnstekjuskattur hækki í 20 prósent og skattþrepum í tekjuskattskerfinu verði fækkað í tvö.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×