Innlent

Skattkortin verða stafræn

Þórhildur Þorkelsdóttir skrifar
Stefnt er að því að notkun skattkorta verði hætt um næstu áramót en sérstakur starfshópur vinnur nú að því að setja persónuafslátt á rafrænt form. Starfandi ríkisskattstjóri segir skattkortin verða barn síns tíma.

Skattkortið hefur verið notað frá árinu 1988, eða frá upptöku  núverandi tekjuskattkerfis en rafræn stjórnsýsla hefur einfaldað líf margra til muna síðustu ár.  Ríkisskattstjóri lagði til við fjármálaráðuneytið í byrjun árs að notkun skattkorta yrði hætt um næstu áramót, og var í kjölfarið settur á laggirnar starfshópur um að afnema skattkort. Hópurinn vinnur nú hörðum höndum að verkefninu og mun skila af sér niðurstöðum með haustinu. 

„Að sumu leyti er þetta barn síns tíma. Við erum að hverfa út úr þessu pappírsþjóðfélagi sem við vorum í fyrir þrjátíu árum og inn í nýja tíma,“ segir Steinþór Haraldsson starfandi ríkisskattstjóri. 

En málið er flóknara en það virðist í fyrstu. Tæknileg lausn liggur fyrir en það þarf að endurskoða lög um staðgreiðslu svo hægt sé að hætta notkun skattkorta í núverandi mynd. Vonast er til að frum­varp sem heim­il­ar breyt­ing­una verði lagt fram inn­an tíðar.

„Ég held að lausnin verði sú að við tökum upp rafrænt skattkort, eða rafrænan persónuafslátt innan skamms. Við stefnum að því að þetta verði komið inn á hvert borð áður en langt um líður,“ segir Steinþór. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×