Erlent

Skátarnir hleypa samkynhneigðum inn

Fanney Birna Jónsdóttir skrifar
Fullorðnir samkynhneigðir einstaklingar vonast til að fá að stjórna innan bandarísku skátahreyfingarinnar.
Fullorðnir samkynhneigðir einstaklingar vonast til að fá að stjórna innan bandarísku skátahreyfingarinnar. Nordicphotos/getty
Búist er við því í dag að bandaríska skátahreyfingin, Boy Scouts of America, leggi niður reglu þess efnis að samkynhneigðir fullorðnir einstaklingar megi ekki verða leiðtogar og foringjar innan hreyfingarinnar. The New York Times greinir frá þessu. Breytingin mun einnig ná til allra annarra starfsmanna hreyfingarinnar.

Hart hefur verið deilt um málið í lengri tíma. Skátahreyfingin hefur verið lögsótt vegna mismununar í garð samkynhneigðra en þrýstingur hefur einnig komið frá skátunum sjálfum, stuðningsaðilum og almenningi.

Þátttaka í skátahreyfingunni hefur minnkað töluvert og eru nú um 70 prósent skátadeilda studd af kirkjum eða trúarhópum.

Kirkjurnar eru margar hverjar mjög andvígar því að fullorðnir samkynhneigðir einstaklingar komist til valda eða fái yfir höfuð að starfa innan skátahreyfingarinnar. Þær hafa því mikla aðkomu að því að velja leiðtoga eða foringja sem aðhyllast trúarleg gildi þeirra.

Samkynhneigðir unglingar fengu fyrst að taka þátt í starfi skátahreyfingarinnar árið 2013 en fullorðnir hafa ekki notið sama réttar.

Robert M. Gates, forseti bandarísku skátahreyfingarinnar og fyrrverandi varnarmálaráðherra Bandaríkjanna, varaði við því í maí að hreyfingin gæti ekki haldið þessu banni áfram.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×