Lífið

Sjónvarpskona stendur vaktina á nýjasta kaffihúsi bæjarsins

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Á Kaffihúsi Vesturbæjar síðdegis í dag.
Á Kaffihúsi Vesturbæjar síðdegis í dag. Vísir/Valli
„Þetta er búið að vera alveg magnaður dagur, alveg yndislegur,“ segir Margrét Marteinsdóttir, vert á Kaffihúsi Vesturbæjar sem opnaði í morgun. Kaffihúsið er á horni Hofsvallagötu og Melhaga gegnt Sundlaug Vesturbæjar.

Að staðnum standa athafnamaðurinn Pétur Marteinsson, bróðir Margrétar, ásamt Gísla Marteini Baldurssyni og fleirum. Sami hópur stendur einnig að KEX Hostel við Skúlagötu.

Húsið var opnað klukkan 7:30 sem verður opnunartími á virkum dögum en um helgar opnar klukkan níu. Opið verður til 23 á kvöldin.

„Það ríkir eintóm hamingja og gleði. Fólk er svo þakklátt fyrir að það sé komið kaffihús í Vesturbæinn,“ segir Margrét. Bræðurnir sem reki Melabúðina hafi komið færandi hendi með stærðarinnar blómvönd í morgun og fagna greinilega nýja nágranna sínum.

Margrét er flestum kunn sem fréttakona á RÚV og segja má með sanni að hún hafi söðlað um. En hvernig gengur henni á bak við afgreiðsluborðið og við kaffivélina?

„Það gengur bara vel. Ég er svo fljót að læra. Sérstaklega af því þetta er svo skemmtilegt,“ segir Margrét sem nýtur þeirra forréttinda að eiga heima á Melhaganum. Varla taki því að fara í skóna til að skjótast milli húsa.

„Ég hendist bara á milli á tásunum,“ grínast Margrét.

Sæti eru fyrir 45 á kaffihúsinu sem verður með áfengisleyfi auk þess sem boðið verður upp á mat. Margrét tekur þó skýrt fram að um kaffihús sé að ræða en ekki fótboltabar.

„Þetta er meira fyrir þá sem vilja koma og fá sér einn fyrir svefninn.“

Pétur Marteinsson var á sínum stað í dag.Vísir/Valli
Margrét Marteinsdóttir bak við afgreiðsluborðið.Vísir/Valli
Vísir/Valli
Vísir/VAlli
Vísir/Valli





Fleiri fréttir

Sjá meira


×