Handbolti

Sjö marka sigrar hjá lærisveinum Dags og Kristjáns

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Dagur og strákarnir hans unnu D-riðil með fullu húsi.
Dagur og strákarnir hans unnu D-riðil með fullu húsi. vísir/getty
Evrópumeistarar Þýskalands báru sigurorð af Króatíu í dag, 28-21, og kláruðu því C-riðilinn á HM í Frakklandi með fullu húsi stiga.

Strákarnir hans Dags Sigurðssonar mæta Katar í 16-liða úrslitunum í París á sunnudaginn.

Króatar byrjuðu leikinn í dag betur og komust í 1-3. Það var þó bara lognið á undan storminum. Þjóðverjar gáfu fljótlega í, komust í 11-5 og þegar liðin gengu til búningsherbergja munaði fjórum mörkum á þeim, 13-9.

Þýska liðið hélt þessari forystu í seinni hálfleik, þrátt fyrir ágætis áhlaup þess króatíska, og Evrópumeistararnir unnu á endanum sjö marka sigur, 28-21.

Línumaðurinn Patrick Wiencek skoraði sex mörk fyrir Þýskaland og Kai Hafner fimm. Þá átti Andreas Wolff góðan leik í þýska markinu og varði 16 skot.

Manuel Strlek og Luka Stepancic skoruðu fimm mörk hvor fyrir Króatíu sem mætir Egyptalandi í 16-liða úrslitunum í Montpellier á sunnudaginn.

Svíar mæta Ungverjum í 16-liða úrslitum.vísir/epa
Svíar unnu öruggan sigur á Egyptum, 33-26, og enda því í 2. sæti D-riðils.

Sænska liðið mætir því hvít-rússneska í Lille á sunnudaginn.

Svíar léku sér að Egyptum í leiknum í dag. Þeir komust í 3-0 og 11-3 og leiddu með sex mörkum í hálfleik, 15-9. Í seinni hálfleik breikkaði bilið og á endanum munaði sjö mörkum á liðunum, 33-26.

Hornamennirnir Niclas Ekberg og Jerry Tollbring voru frábærir í sænska liðinu. Ekberg skoraði átta mörk og Tollbring sex. Þeir voru báðir með 100% skotnýtingu. Jim Gottfridsson skoraði einnig sex mörk fyrir Svía.

Eslam Issa skoraði sjö mörk fyrir Egyptaland.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×