Innlent

Silfrið hefur göngu sína á RÚV eftir áramót

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Vísir hefur heimildir fyrir því að umsjónarmenn þáttarins verði Egill Helgason, sjónvarpsmaður á RÚV, og Fanney Birna Jónsdóttir, fyrrverandi aðstoðarritstjóri Fréttablaðsins, en Skarphéðinn vill ekkert staðfesta í þeim efnum.
Vísir hefur heimildir fyrir því að umsjónarmenn þáttarins verði Egill Helgason, sjónvarpsmaður á RÚV, og Fanney Birna Jónsdóttir, fyrrverandi aðstoðarritstjóri Fréttablaðsins, en Skarphéðinn vill ekkert staðfesta í þeim efnum. vísir
Sjónvarpsþátturinn Silfrið mun hefja göngu sína á RÚV eftir áramót en um er að ræða þjóðmálaþátt sem verður á dagskrá á sunnudögum.

Að sögn Skarphéðins Guðmundssonar, dagskrárstjóra sjónvarps RÚV, verður Silfrið umræðuþáttur um þjóðmálin en stefnt er að því að fyrsti þátturinn fari í loftið um mánaðamótin janúar/febrúar.

Vísir hefur heimildir fyrir því að umsjónarmenn þáttarins verði Egill Helgason, sjónvarpsmaður á RÚV, og Fanney Birna Jónsdóttir, fyrrverandi aðstoðarritstjóri Fréttablaðsins, en Skarphéðinn vill ekkert staðfesta í þeim efnum.

Skarphéðinn segir hvorki frágengið hverjir verða umsjónarmenn þáttarins né hversu margir þeir verða, einn, tveir eða jafnvel þrír. Þá er heldur ekki búið að ákveða klukkan hvað þátturinn verður á dagskrá á sunnudögum en þó liggur ljóst að hann verður á dagskrá að deginum til.

Margir muna eflaust eftir þjóðmálaþættinum Silfri Egils sem var einmitt í umsjón Egils Helgasonar á sínum tíma. Sá þáttur fór fyrst í loftið árið 1999 á Skjá Einum. Egill flutti sig síðan yfir á Stöð 2 árið 2005 og þaðan yfir til RÚV en hætti með þáttinn árið 2013.

Nú í haust hóf þjóðmálaþátturinn Víglínan göngu sína á Stöð 2 en hann er á dagskrá í hádeginu á laugardögum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×