Viðskipti innlent

Sigurjón Þ. Árnason: Málshöfðun slitastjórnar óskiljanleg

Þorbjörn Þórðarson skrifar
Sigurjón Þ. Árnason, fyrrverandi bankastjóri Landsbankans, segir skaðabótamál slitastjórnar bankans á hendur sér algjörlega óskiljanlegt. Hann segir að einhver í Landsbankanum hljóti að hafa framlengt 19 milljarða króna lán til Straums eftir að hann fór úr bankanum eða tekið ákvörðun um að innheimta ekki lánið.

Hinn 30. september 2008, viku fyrir hrun, gerðu Landsbankinn og Straumur, sem voru í eigu sömu aðila, samning um lánalínu en félög tengd Björgólfi Thor Björgólfssyni voru stærstu hluthafar bæði Landsbankans og Straums. Tveimur dögum síðar, hinn 2. október, dró Straumur 19 milljarða króna á þessa lánalínu án þess að veita tryggingar fyrir lánveitingunni. Það er meðal annars á þessari forsendu sem slitastjórn bankans hefur höfðað skaðabótamál á hendur Sigurjóni Þ. Árnasyni og Halldóri J. Kristjánssyni, fyrrverandi bankastjórum bankans.

Slitastjórnin telur að þeim hafi mátt vera ljóst að með því að lána þessa peninga, án trygginga, væri veruleg hætta á því að Landsbankinn yrði fyrir tjóni þar sem Straumur myndi ekki geta endurgreitt lánið. Um er að ræða annan hluta skaðabótamáls á hendur þeim en slitastjórnin krefur þá hvorn um sig um 11,5 milljarða króna vegna þessa tilekna láns.

Sigurjón Þ. Árnason sagði þetta mál óskiljanlegt í samtali við fréttastofu Stöðvar 2 og Vísis í dag því Landsbankanum hafi verið í lófa lagið að innheimta kröfuna. „Við ákváðum að selja Straumi dótturfélögin okkar, Kepler Equities, Merrion Capital og Landsbanki Securities í Lundúnum og á sama tíma þá var gert samkomulag um að Straumur gæti fengið lánaðar hjá okkur íslenskar krónur, sem við áttum nóg af. Ekkert varð úr sölunni á dótturfélögunum en það var gengið frá samningum um lánalínuna aðfaranótt 1. október 2008. Straumur dró síðan 19 milljarða króna á línuna hinn 2. október. Straumur fékk þessa peninga lánaða í viku, eða til 9. október. Hinn 8. október sagði ég upp starfi mínu og Halldór líka. Síðan 9. október komu þessi lán á gjalddaga. Ég veit ekki hvað gerðist þá en ég veit að Straumur var ekki tekinn yfir af Fjármálaeftirlitinu fyrr en í mars 2009. Mér er algjörlega óskiljanlegt að það sé verið að höfða skaðabótamál á hendur okkur. Einhver hlýtur að hafa gert eitthvað 9. október, því Landsbankanum átti að vera í lófa lagið að innheimta lánið þá því Straumur var klárlega gjaldfær og með langt yfir 100 milljarða króna í eigið fé, samkvæmt þeim uppgjörum sem þeir birtu síðar," segir Sigurjón.

Hann segir að einhver hljóti að hafa framlengt í láninu eftir að hann fór úr bankanum, eða tekið ákvörðun um að innheimta það ekki.

Sigurjón segir að þegar Straumur hafi ákveðið að nýta lánið hafi það ekki komið inn á borð til sín. Fjárstýring bankans hafi metið það hvort bankinn ætti laust fé til að lána, en Jón Þorsteinn Oddleifsson var yfirmaður fjárstýringar bankans á þessum tíma. „Fjárstýring metur það, samkvæmt reglum, hvort bankinn eigi laust fé til að lána og það kemur ekki inn á borð bankastjóra. Þeir lánuðu þessa peninga í viku og eftir það veit ég ekki hvað gerðist. Straumur var sprelllifandi 9. október og var í fullum rekstri með starfsemi, uppgjör og eigið fé," segir Sigurjón.

Aðspurður um dagsetninguna sem lánasamningurinn var gerður, þ.e 30. September 2008, og hvort þetta hafi ekki verið slæmur tími til að gera samninga um lánalínur upp á slíkar fjárhæðir, segir Sigurjón svo ekki vera. „Á þessum tíma átti enginn von á því að allt bankakerfið væri að falla. Menn héldu að yfirtaka Glitnis væri hluti af björgunaraðgerðum. Þetta var bara venjulegt millibankalán á þessum tíma. Það héldu allir að þetta væri fyrsta skrefið af mörgum til að bjarga bönkunum. Eftir 6. október liggur fyrir að bankarnir eru að falla hver á fætur öðrum. Það er algjör grundvallarmunur á þessu. Millibankalán voru algeng í viðskiptum milli banka á þessum tíma." segir Sigurjón. Hann segir að það sé algjör eftiráskýring, sem sumir hafi tekið upp hér á landi, að forystumenn í bankakerfinu hafi séð í hvað stefndi með yfirtökunni á Glitni.



Segir Straum hafa verið sterkan fjárhagslega
Sigurjón Þ. Árnason ásamt Björgólfi Thor Björgólfssyni. Félög tengd Björgólfi voru stærstu hluthafar í bæði Landsbankanum og Straumi, en Straumur fékk 19 milljarða króna lán hjá Landsbankanum 2. október 2008 án veðtrygginga.
„Það má ekki gleyma því að Straumur var með eigið fé upp á 1,6 milljarða evra. Það var búið að liggja yfir þessum eignum í marga mánuði og menn vissu alveg hver staðan á Straumi var. Enda kom það í ljós að Straumur stóð af sér alla þá gjörninga sem þarna voru og var starfandi alveg fram í mars 2009, þegar margir vilja meina að hann hafi fallið að óþörfu, án þess að ég geti mikið tjáð mig um það."

Hinn hluti skaðabótamálsins á hendur Sigurjóni og Halldóri og jafnframt Elínu Sigfúsdóttur snýr að málefnum Fjárfestingafélagsins Grettis, sem var í eigu Björgólfs Guðmundssonar, fyrrvverandi formanns bankaráðs Landsbankanks, en slitastjórnin telur að bankastjórarnir og Elín beri ábyrgð á því að látið hafi verið hjá líða að innheimta bankaábyrgð vegna lánveitinga til Grettis. Eru þau krafin um 16,2 milljarða króna vegna þessa.

Í júní 2008 skuldaði Grettir 40 milljarða króna. Helstu eignir félagsins, Eimskip og Icelandic Group, höfðu fallið mikið í verði og á þessum tíma var ljóst að félagið var ógjaldfært. Skuldir Grettis við Landsbankann voru tryggðar með bankaábyrgð frá Kaupþingi í Lúxemborg en ábyrgðin nam 18 milljörðum króna og gilti hún til 26. júní 2008. Viku áður, eða 18. júní féll í gjalddaga 18,4 milljarða lán Landsbankans til Grettis. Slitastjórn vill meina að þeir Sigurjón, Halldór og Elín hafi valdið Landsbankanum miklu tjóni með því að láta hjá líða að innheimta þessa bankaábyrgð.

Var í sumarfríi þegar lánið til Grettis féll í gjalddaga

Varðandi mál Grettis þá segir Sigurjón að það hafi aldrei komið inn á borð til sín á fyrstu stigum. „Ég var í sumarfríi á þessum tíma, þ.e þeim tíma sem máli skiptir. Á síðari stigum málsins kom ég að málinu til að reyna að leysa úr því en það var á allt öðrum tímapunkti. Enda var það innbyggt í ferla bankans að það var ekki gert ráð fyrir að bankastjóri væri að vasast í einstökum málum af þessu tagi. Landsbankinn var risastórt fyrirtæki. Og verkferlegar gerðu ekki ráð fyrir því að bankastjóri kæmi að ákvörðunum eins og að innheimta ábyrgðir."

Sigurjón vill ekki svara því hver hafi borið ábyrgð að innheimta kröfuna þar sem hann vilji ekki varpa ábyrgð á einhverja nafngreinda starfsmenn bankans. „En ég var í sumarleyfi þegar þetta fellur á gjalddaga. Ég fór í leyfi í júní 2008 því þá var búið að ganga frá samningum við breska fjármálaeftirlitið um hvernig ætti að standa að Icesave-málum, en öfugt við það sem allir halda á Íslandi þá vildu þeir ekki setja reikningana í dótturfélag á þessum tímapunkti. Skuldatryggingarálag á íslensku bankana hafði um mánaðarmótin maí-júní lækkað umtalsvert og Moody's var búið að staðfesta óbreytt lánshæfismat fyrir Landsbankann. Fitch var búið að falla frá þeim áformum að lækka lánshæfiseinkunn bankans. Og ríkisstjórnin var búin að lýsa því yfir að hún hygðist hrinda í framkvæmd áætlun til að afla lánsfjármagns til þess að geta stutt við bankakerfið ef þörf væri á. Þess vegna fór ég í frí á þessum tíma, hinn 14. júní 2008," segir Sigurjón. Hann segist hafa mánuði síðar í júlí frétt af þessari kröfu vegna Grettis og þá hafi ekki verið hægt að innheimta hana. Öll vinna eftir það hafi snúist um að reyna að fá framlengingu á kröfunni, enda hafi Kaupþing ekki greitt bankaábyrgðina hinn 26.júní.

Starfsmenn Björgólfs sáu um að útvega ábyrgðina

„Það sem er sérstakt við þetta Grettis mál er að ábyrgðin hefur verið hönnuð með sérstökum hætti, þ.e að ábyrgðin rann út mjög stuttu eftir að lánið féll á gjalddaga, aðeins viku síðar. Og það var afleiðing af því að upphaflega var Grettir ekki félag í eigu Björgólfs Guðmundssonar eingöngu, heldur var hann aðeins einn af nokkrum fjárfestum. Í kringum apríl 2007 þróast mál með þeim hætti að Björgólfur kaupir út flesta aðra eigendur Grettis. Við það verða lán Grettis, sem var í eigu ólíkra fjárfesta, lán til félags sem var komið í meirihlutaeigu formanns bankaráðsins. Þann gjörning þurfti lögum samkvæmt að taka fyrir á bankaráðsfundi og afgreiða. Það var gert og sérstaklega var bókað að um skammtímakröfu yrði að ræða."

Sigurjón segir að menn á vegum Björgólfs Guðmundssonar hafi útvegað bankaábyrgð frá Kaupþingi í Lúxemborg á móti þessum lánum. „Það voru þeir sem hönnuðu þessa ábyrgð og þess vegna var hún dálítið óvenjuleg. Það var gerð krafa um ábyrgð en með því að taka við henni minnkaði Landsbankinn áhættu sína gagnvart stjórnarformanninum. Mál af þessi tagi komu ekki inn á borð til okkar Halldórs nema einhverjir starfsmenn bankans leituðu til okkar með þau. Það var ekki leitað til bankastjóra vegna átta daga vanskila á einstökum lánum. Bankinn var það stór og það var fjöldi deilda sem áttu að sjá um þetta. Þess vegna finnst mér undarlegt að hægt sé að krefja bankastjórnendur um skaðabætur. Kjarni málsins er sá að slitastjórn Landsbankans heldur að það hafi einhver á einhverjum tímapunkti tekið ákvörðun að ganga ekki á eftir ábyrgðinni, en það var ekki þannig. Það hefði aldrei nokkur maður innan bankans gert slíkt. Hver hefði hagsmuni af því að axla ábyrgð á slíku? Ekki nokkur maður," segir Sigurjón Þ. Árnason, fyrrverandi bankastjóri Landsbankans. thorbjorn@stod2.is





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×