Enski boltinn

Sigurhrina Arons Einars og félaga endaði í Brighton

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Aron Einar Gunnarsson í baráttunni á suðurströnd Englands í kvöld.
Aron Einar Gunnarsson í baráttunni á suðurströnd Englands í kvöld. vísir/getty
Aron Einar Gunnarsson, landsliðsfyrirliði Íslands í fótbolta, var að vanda í byrjunarliði Cardiff í kvöld þegar liðið tapaði fyrir Brighton í ensku B-deildinni, 1-0, á útivelli.

Tommer Hemed skoraði eina mark leiksins fyrir heimamenn á suðurströndinni á 73. mínútu en fátt virðist komast í veg fyrir að Brighton fari loksins upp í úrvalsdeildina.

Brighton er búið að vera í umspilinu undanfarin ár en það komst á toppinn í B-deildinni með sigrinum í kvöld. Það er nú með 60 stig, stigi meira en Newcastle sem er í röðru sæti en það sem skiptir máli er að liðið er með ellefu stiga forskot á Huddersfield sem er í þriðja sæti.

Aron Einar og hans menn eru búnir að vera á uppleið undanfarið en áður en kom að tapinu í kvöld var velska liðið búið að vinna þrjá leiki í röð og ekki tapa í síðustu fjórum. Cardiff er í 16. sæti með 33 stig, átta stigum frá fallsvæðinu og tólf stigum frá umspilssæti.

Ragnar Sigurðsson, landsliðsmiðvörður Íslands, sat þriðja leikinn í röð allan tímann á varamannabekknum þegar Fulham tapaði fyrir Reading, 1-0, í B-deildinni í kvöld. Fulham-menn lentu 1-0 undir á 49. mínútu og klúðruðu vítaspyrnu á 89. mínútu en mark þar hefði getað tryggt liðinu eitt stig.

Ragnar, sem gekk í raðir Fulham frá Krasnodar í lok ágúst í fyrra, er nú aðeins búinn að byrja einn leik í deildinni og koma við sögu í þremur af síðustu tíu hjá Lundúnarliðinu.

Þessi hrina hófst 3. desember í fyrra þegar hann var ekki í leikmannahópnum en áður en að því kom var Ragnar búinn að spila tólf deildarleiki í röð frá upphafi til enda.

Fulham er í níunda sæti með 40 stig, fimm stigum frá umspilsæti en það hefði getað komið sér í fína stöðu með sigrinum í kvöld. Jaap Stam og hans menn í Reading eru í þriðja sætinu með 49 stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×