Handbolti

Sigurganga Birnu og félaga endaði í toppslagnum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Birna Berg Haraldsdóttir skoraði þrjú mörk í leiknum.
Birna Berg Haraldsdóttir skoraði þrjú mörk í leiknum. vísir/getty
Íslenska landsliðskonan Birna Berg Haraldsdóttir og félagar hennar i norska liðinu Glassverket IF urðu að sætta sig við tap á móti Larvik í toppslag norsku kvennadeildarinnar í handbolta í kvöld.

Larvik vann leikinn 31-25 og endaði þar með sex leikja sigurgöngu Glassverket liðsins í norsku deildinni. Larvik er þar með búið að ná sjö stiga forystu á toppnum en liðið hefur unnið alla sautján deildarleiki sína á tímabilinu.

Birna Berg Haraldsdóttir nýtti öll þrjú skotin sín í leiknum, fyrsta markið kom með langskoti en hin tvö úr vítum. Birna Berg skoraði fyrsta mark leiksins og minnkaði síðan muninn í 13-14 undir lok fyrri hálfleiks og svo aftur í 23-31 þegar lítið var eftir.

Larvik var einu marki yfir í hálfleik, 15-14, en stakk af í byrjun seinni hálfleiks þegar liðið skoraði 13 af fyrstu 20 mörkum seinni hálfleiksins.

Emilie Christensen var markahæst hjá Glassverket liðinu en hún nýtti öll átta skotin sín í leiknum. Line Bjørnsen skoraði fimm mörk.

Larvik hefur unnið norska meistaratitilinn tólf ár í röð og er með gríðarlega sterkt lið. Tine Stange skoraði níu mörk í kvöld og Amanda Kurtović var með átta mörk.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×