Innlent

Sigmundur Davíð bíður eftir að forsetinn taki af skarið

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson á fundi með fréttamönnum eftir fundinn með forseta.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson á fundi með fréttamönnum eftir fundinn með forseta.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins, segist bíða eftir því að forsetinn taki af skarið með að ákveða hvaða stjórnmálaflokkur fái umboð til þess að hefja stjórnarmyndunarviðræður. Þetta sagði hann að loknum fundi með Ólafi Ragnari Grímssyni, forseta Íslands, á Bessastöðum í dag.

Sigmundur Davíð játaði að hafa átt í mjög óformlegum viðræðum við Bjarna Benediktsson, formann Sjálfstæðisflokksins, í gærkvöldi, en varaði við að það yrði lesið of mikið úr slíkum samræðum. Hann sagði að hvorki formlegar né óformlegar samningaviðræður væru hafnar, og sagði að hann byggist ekki við að viðræður hæfust í dag, fyrst þyrfti forsetinn að að segja til um það hver fengi umboð til þess að hefja þær.

Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, sagði eftir fund sinn með forsetanum fyrr í dag að hann byggist við því að formenn stærstu flokkanna, það er Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins, myndu ræða saman í dag. Stjórnarmyndunarviðræður þyrftu ekki að taka nema eina til tvær vikur.

Sigmundur Davíð, var spurður á fréttamannafundi eftir fund hans með forsetanum, hvort hann fengi stjórnarmyndunarumboð. Hann svaraði afdráttarlaust: Ég hef ekki hugmynd. Aðspurður hvort forsetinn hafi gefið eitthvað í skyn á fundi þeirra, svaraði Sigmundur neitandi.

Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar, er nú á fundi Ólafs Ragnars en sá fundur er styttri en fundir forsetans með formönnum Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins, sem voru einn og hálfur tími að lengd. Aðrir fundir eru klukkutími að lengd.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×