Viðskipti innlent

Sigmundur Davíð: Allt í boði fyrir kínverska ferðamenn á Íslandi

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra fagnar fjölgun kínverskra ferðamanna í samtali við þarlenda miðla. 23 þúsund Kínverjar sóttu Ísland heim á fyrstu ellefu mánuðum ársins sem er aukning um helming frá árinu á undan.

„Allt sem eykur á samskipti Íslendinga og Kínverja er jákvætt,“ segir Sigmundur Davíð en sem kunnugt er var fríverslunarsamningur þjóðanna handsalaður á árinu.

Forsætisráðherrann nýtti tækifærið til þess að heilsa mögulegum ferðamönnum í Kína og minnti á að ferðamenn skorti ekkert á Íslandi.

„Hér er margt að gera og sjá, augljóslega bjóðum við upp á okkar stórkostlegu náttúru en um leið menningu, mat og já, í sjálfu sér er allt í boði hér á Íslandi.“

Í frétt Xinhua News Agency, einnar stærstu fréttastofu Kína, er einnig fjallað um kínverska útgáfu íslenska ferðaritsins Icelandic Times á öllum helstu miðlum samsteypunnar.

Edda Snorradóttir hjá Icelandic Times segir að fjölgun kínverskra ferðamanna leiði til þess að Íslendingar þurfi að efla þjónustu við hópinn.

Frétt Xinhua News Agency má sjá hér en þar er einnig rætt við Ragnheiði Elínu Árnadóttur iðnaðarráðherra.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×