Íslenski boltinn

Sigmar Ingi á leið í Keflavík

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Sigmar Ingi í leik með Haukum gegn KV í 1. deildinni í fyrra.
Sigmar Ingi í leik með Haukum gegn KV í 1. deildinni í fyrra. vísir/daníel
Keflavík, botnlið Pepsi-deildar karla í fótbolta, er búið að finna markvörðinn sem það hefur leitað að síðan Hollendingurinn Richards Arends var sendur heim.

Sigmar Ingi Sigurðarson, fyrrverandi markvörður Breiðabliks, Hauka og Fram gengur í raðir liðsins í dag en verið er að ganga frá samningi við hann.

„Hann kemur með reynslu inn í þetta og hjálpar Sindra líka. Það er flott að fá svona sterkan karakter inn í þetta hjá okkur,“ segir Jóhann B. Guðmundsson, annar þjálfara Keflavíkur, við Vísi.

En kemur hann til með að verða aðalmarkvörður? „Hann verður bara í baráttunni við Sindra og svo skoðum við það í framhaldinu. Við höfum verið ánægðir með Sindra,“ segir Jóhann.

Sigmar Ingi er uppalinn Bliki og spilaði sína fyrstu leiki með Kópavogsliðinu 2003. Hann varði síðan mark Hvatar og ÍH áður en hann gekk aftur í raðir Breiðabliks 2009.

Hann var þá varamarkvörður Ingvars kale en spilaði átta leiki 2011 og níu leiki 2012 áður en hann gekk svo í raðir Hauka þar sem hann spilaði alla deildarleiki liðsins bæði 2013 og 2014.

Sigmar yfirgaf Hauka síðasta vetur og samdi við Fram. Hann varði mark liðsins í fyrstu tveimur leikjum 1. deildarinnar og tveimur bikarleikjum áður en hann missti stöðuna í hendur Bandaríkjamannsins Cody Mizell.

Sigmar Ingi verður væntanlega í hópnum í næsta leik Keflavíkur á miðvikudaginn kemur þegar botnliðið heimsækir uppeldisfélag hans, Breiðablik.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×