Viðskipti innlent

Sérstakur saksóknari ekki náð markmiðum sínum

Þorbjörn Þórðarson skrifar
Sérstakur saksóknari stefndi að því að ljúka 27 málum á ári samkvæmt áætlun sem send var stjórnvöldum. Þetta hefur ekki gengið eftir en á síðasta ári var ákært í 7 málum. Þá átti að ákæra í 10 málum í flokknum "stór mál" á árunum 2010-2013 en engin ákæra hefur verið gefin út sem fellur þar undir. Kostnaður embættisins er áætlaður rúmlega fimm milljarðar króna á fimm árum.

Fimm milljarðar á fimm árum

Í sérstöku minnisblaði sem Ólafur Þór Hauksson, sérstakur saksóknari, sendi Rögnu Árnadóttur, þáverandi dómsmálaráðherra, hinn 6. maí 2010 er kostnaður embættisins og starfsáætlun útlistuð. Þetta minnisblað var m.a til rökstuðnings fyrir auknum fjárveitingum til embættis hans.

Fjöldi starfsmanna hjá sérstökum saksóknara nálgast nú hundrað, en embættið hefur haft höfuðstöðvar sínar á Skúlagötu eftir að starfsmönnum fjölgaði.

Í minnisblaði sérstaks saksóknara til ráðherra segir að fjöldi starfsfólks við rannsókn og saksókna þurfi að vera að lágmarki 80 manns.

Í minnisblaðinu gert ráð fyrir heildarkostnaði upp á 5030 milljónir króna á fimm árum sem greiðst úr ríkissjóði. Launakostnaðurinn er stærsti liðurinn, eða 3000 milljónir króna.

Meðallaunin 833 þúsund á mánuði

Á árinu 2011 var gert ráð fyrir áttatíu starfsmönnum og launakostnaði upp á 800 milljónir króna vegna þessara starfsmanna.

Það þýðir meðallaun upp á 833 þúsund krónur á mánuði, en fréttastofan hefur heimildir fyrir því að lögfræðingar hafi ráðið sig úr einkageiranum og til embættisins meðal annars vegna þess að þar buðust betri laun.

Til samanburðar voru meðallaun á almennum vinnumarkaði 348 þúsund krónur árið 2010 samkvæmt tölum Hagstofunnar, en ekki hafa verið birtar tölur fyrir 2011.

Í bréfi sem Dómstólaráð sendi þáverandi dóms- og mannréttindaráðherra í 30. júní 2010 um fjölgun héraðsdómara vegna aukins málaþunga hjá dómstólum, sem fréttastofan hefur undir höndum, kemur fram að með öllum fyrirvörum muni 9 ákærur berast frá sérstökum saksóknara á árinu 2010 og 81 árin 2011, 2012 og 2013. 27 ákærur ár hvert, eða samtals 90 mál. Þarna er vitnað til upplýsinga sem Dómstólaráð fékk frá embætti sérstaks saksóknara. Bréfið hefur ekki birst opinberlega en ljóst er að þessi áætlun hefur ekki haldist, enda var ákært í sjö málum í fyrra.

Í bréfinu er vitnað til sérstakrar flokkunar á stórum málum, en stór mál samkvæmt þessari skilgreiningu eru mál þar sem ráðgert er að þrír eða fleiri verði ákærðir í hverju máli, ákæruliðir verði fleiri en 20, sakarefni varði marga flókna fjármálagerninga, skjalamagn verði mælt í þúsundum blaðsíðna og vitni verði fleiri en 40.

Samkvæmt bréfinu áttu tíu ákærur í stórum málum að berast á árunum 2010-2013. Engin ákæra hefur hins vegar verið gefin út sem fellur undir framangreinda skilgreiningu á stóru máli.

Ólafur Þór Hauksson, sérstakur saksóknari, segir að þunginn í rannsóknum á stórum málum hafi verið á árinu 2010 og 2011. Embættið hafi enn tvö ár til stefnu til að ná markmiðum sínum. Þá hafi tafir á afhendingu gagna frá útlöndum seinkað rannsóknum embættisins. thorbjorn@stod2.is





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×