Skoðun

Séreignarsparnaður – húsnæðislán

Már Wolfgang Mixa skrifar um skuldavanda heimilanna:

Fjárfestingar séreignarsparnaðar mega vera í hlutabréfum, skuldabréfum og bundnum innlánum. Þetta var sjálfsagt á meðan allt lék í lyndi, flestir sem spöruðu með þessum hætti voru að auka líkur á áhyggjulausum ævidögum síðar meir. Sparnaðurinn hefur verið laus til útborgunar frá 60 ára aldri nema þegar um örorku eða andlát er að ræða. Ég vil að boðið verði upp á fjórðu leiðina. Hún felur í sér að fólk geti fjárfest í sínu eigin húsnæði með niðurgreiðslu skulda.

Slíkt væri hægt með tvennum hætti. Fólk gæti notað sparnað sinn ótakmarkað til að greiða inn á lán sín eða til greiðslu á vöxtum og afborgunum af fasteign sinni. Þetta myndi hjálpa mörgum við að létta á greiðslubyrði sinni og þar sem útborgunin er skattskyld fengi ríkissjóður peninga í kassann.

Þegar upphafleg umræða um heimild til útgreiðslu átti sér stað, að hámarki samtals milljón krónur, var gert ráð fyrir að tvöfalt hærri upphæð færi í greiðslur úr séreignarsjóðum en raunin hefur orðið. Rök um að rýmkun til útborgunar leiði til þess að séreignarsjóðir þurfi að selja eignir í stórum stíl og mynda neikvæðan söluþrýsting eru því ómarktæk. Kínamúrar fjármálastofnana eiga auk þess að tryggja að kröfuhafar geti ekki þrýst á skuldara að ganga á lífeyrisséreign sína.

Þetta minnkar skuldsetningu heimilanna og gæti verið mótvægi við núverandi stöðnun í efnahagslífi þjóðarinnar. Hvati til sparnaðar eykst einnig því með þessu er tryggt að þeir sem sýnt hafa fyrirhyggju í sparnaði og kjósa að minnka húsnæðisskuldir sínar fái að njóta þess í dag þegar að þörfin er mest.

Höfundur er fjármálafræðingur.






Skoðun

Skoðun

Bestu árin

Álfhildur Leifsdóttir,Hólmfríður Jennýjar Árnadóttir,Sigríður Gísladóttir skrifar

Sjá meira


×